• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
24
Jun

Mikilvægi stéttarfélaga gríðarleg við að verja réttindi sinna félagsmanna

Eins og ætíð er umtalsvert að gera við réttindavarðveislu fyrir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness en eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá hefur félagið innheimt vegna vangreiddra launa og ágreinings vegna túlkunar á ráðningarsamningum og kjarasamningum rétt rúman einn milljarð frá árinu 2004. Í þessu samhengi er ekki verið að taka tillit til margfeldisáhrifa sem sum réttindamálin hafa síðan leitt af sér til framtíðar. Stærsta einstaka málið sem félagið hefur innheimt fyrir sína félagsmenn er mál sem vannst fyrir dómstólum gegn Hval á síðasta ári en það skilaði um 100 milljónum.

Í þessari viku eru nokkur mál sem félagið vinnur að við að verja réttindi sinna félagsmanna. Einu lauk í gær með leiðréttingu til félagsmanns upp á 321.000 kr. vegna rangtúlkunar atvinnurekanda á hvernig hlutabótaleiðin skuli framkvæmd.

Annað lýtur að túlkun á starfslokum starfsmanns vegna atvinnusjúkdóms en það mál er í vinnslu en samkvæmt sérfræðingi í húðsjúkdómum eru umrædd veikindi að hans mati atvinnusjúkdómur en til þessa hefur fyrirtækið ekki fallist á þá niðurstöðu. Félagið mun klárlega fylgja þessu máli eftir alla leið enda eru það sérfræðingar í læknisfræðum sem vega og meta það hvort um atvinnusjúkdóm sé að ræða ekki atvinnurekendur.

Þriðja málið er um orlofsréttindi starfsmanna Norðuráls eftir að tekið var upp nýtt vaktakerfi eða hætt með 12 tíma vaktir og unnið þess í stað 8 tíma vaktir. Félagið hefur fært góð og gild rök fyrir sinni afstöðu í þessum ágreiningi og ljóst að um jafnvel tug milljóna hagsmuni er að ræða fyrir félagsmenn VLFA í þessu máli. Formaður hefur greint Samtökum atvinnulífsins frá því að ef ekki fæst niðurstaða í málið eins og VLFA túlkar þennan ágreining mun félagið láta á málið reyna fyrir Félagsdómi.

Það er morgunljóst að mikilvægi stéttarfélaga við að varðveita kjarasamningsleg réttindi sinna félagsmanna er gríðarlegt enda leikurinn á milli launamannsins og atvinnurekandans afar ójafn og er formaður nokkuð viss um að nánast ekkert af þessum málum hefðu fallið starfsmönnum í hag nema með aðkomu stéttarfélagsins.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image