• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
May

Aðalfundur VLFA var haldinn 26. maí

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness var haldinn miðvikudaginn 26. maí. Í skýrslu stjórnar fór formaður yfir helstu atriði í starfsemi félagsins á liðnu ári og kom fram í máli hans að félagið stendur gríðarlega vel jafnt félagslega sem fjárhagslega.

Rekstrarafgangur samstæðunnar var 133 milljónir og nemur eigið fé félagsins rétt tæpum 1,8 milljarði. Formaður fór yfir hvaða atriði í starfsemi félagsins voru helst til afgreiðslu á síðasta ári og bar þar hæst kjarasamningagerð fyrir Norðurál og Elkem á Grundartanga en báðir þessir samningar eru að skila okkar félagsmönnum umtalsverðum ávinningi.

Það kom einnig fram í skýrslu stjórnar að á síðasta ári vann félagið mál gegn Hval hf. sem skilaði þeim sem áttu hlut að máli samtals uppundir 100 milljónum vegna vanefnda á kjörum samkvæmt ráðningarsamningi. Það kom líka fram að frá árinu 2004 hefur félagið innheimt vegna ágreinings og vanefnda atvinnurekenda 1 milljarð króna og kom fram að nánast útilokað hefði verið að þessir fjármunir hefðu skilað sér til þeirra sem áttu hlut að máli nema með aðkomu og hjálp stéttarfélagsins.

Formaður fór ítarlega yfir húsnæðisbreytingar félagsins en félagið keypti nýtt húsnæði að Þjóðbraut 1 sem er 311 fermetrar að stærð og er framtíðarhúsnæði á besta stað í bænum en gamla húsnæðið að Sunnubraut 13 var sett upp í nýja húsnæðið.

Það kom einnig fram að félagsmenn hafa blessunarlega verið afar duglegir að nýta sér þá þjónustu sem félagið býður þeim upp á enda sýnir öll tölfræði það.

En tölfræðin var með eftirfarandi hætti:

  • 1.091 manns fengu greiðslu úr sjúkrasjóði félagsins
  • 294 einstaklingsstyrkir voru afgreiddir úr menntasjóðunum
  • 292 félagsmenn keyptu veiðikort, útilegukort og gistimiða á hótel
  • 504 bókanir voru í orlofshús félagsins á síðasta ári

Á þessu sést að 82% félagsmanna eru að nýta sér þjónustu félagsins og er það fyrir utan alla þá þjónustu sem félagið sinnir í formi heimsókna og hringinga sem nema tugum á degi hverjum.

Það er afar ánægjulegt að heyra að félagsmenn séu ánægðir og stoltir af félaginu sínu og almennt mjög ánægðir með þá þjónustu sem félagið býður upp á.

Eins og alltaf þá er það regla stjórnar að láta félagsmenn njóta góðs af góðri afkomu félagsins og í ár var engin undantekning þar á. En vegna góðrar afkomu var heilsueflingarstyrkurinn hækkaður úr 30 þúsundum í 40 þúsund og heilsufarskoðunarstyrkurinn hækkaður úr 25 þúsundum í 30 þúsund. Þessu til viðbótar ákvað stjórn félagsins að bjóða félagsmönnum endurgreiðslu vegna gistingar á hótelum og tjaldsvæðum að fjárhæð 10 þúsund í sumar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image