• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
01
May

1. maí ræða formanns Verkalýðsfélags Akraness

Ágætu félagar

Ég vil byrja á að óska félagsmönnum mínum sem og öllu launafólki innilega til hamingju með baráttudag verkalýðsins á þessum fordæmalausu tímum. En eins og allir vita þá hefur Kórónuveirufaraldurinn gert það að verkum að allri hátíðardagskrá verkalýðshreyfingarinnar hefur verið aflýst annað árið í röð og er það gert til að fylgja tilmælum frá Almannavörnum.

Það er klárt mál að þessi faraldur verður skráður á spjöld sögunnar enda eru áhrif hans á heilsu og hagkerfi heimsins með þeim hætti að slíkt á sér vart fordæmi.

Það er undarlegt að lifa þá tíma að í fyrsta sinn síðan 1923 geti íslenskt launafólk ekki safnast saman á 1. maí til að leggja áherslu á kröfur sínar tvö ár í röð.

Ég held að það dyljist engum að það er farið að gæta óþols eða svokallaðrar sóttvarnaþreytu hjá almenningi vegna faraldursins, en það er hins vegar ekki annað hægt en að hrósa íslensku þjóðinni fyrir þá gríðarlegu samstöðu sem hefur hjálpað okkur við að ná tökum á faraldrinum. Það er líka ljóst að íslenskt launafólk og almenningur ætlar að vinna saman að því að kveða niður þessa óværu og halda áfram að standa saman og fylgja fyrirmælum frá sóttvarnarlækni og hans teymi allt til enda.

Það þarf ekkert að fara í grafgötur með að Kórónuveirufaraldurinn hefur valdið okkur gríðarlegum búsifjum enda er áætlað að verðmætasköpun þjóðarbúskapsins hafi dregist saman um hundruð milljarða.

Okkar helstu gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar hafa hlotið mikinn skell og nægir að nefna í því samhengi ferðaþjónustuna sem stöðvaðist nánast allfarið um tíma vegna þess að flugsamgöngur lögðust af um allan heim.

Það þarf heldur ekkert að fara í grafgötur með þau áhrif sem faraldurinn hefur haft á atvinnuöryggi á vinnumarkaðnum og það blasir við að almenni vinnumarkaðurinn á Íslandi var eins og blóðugur vígvöllur vegna faraldursins. Á almenna vinnumarkaðnum starfa um 140 þúsund manns, en uppundir 60 þúsund starfa hjá ríki og sveitarfélögum. Af þessum 140 þúsund manns sem starfa á almenna vinnumarkaðnum voru í mars 25.205 manns sem höfðu misst vinnuna að fullu eða að hluta, sem er um 18% af þeim sem starfa á almenna vinnumarkaðnum, en sára fáir hafa hins vegar misst vinnuna hjá hinu opinbera.

Það er ljóst að faraldurinn hefur leikið fjölmarga gríðarlega illa og nægir að nefna alla þá sem misst hafa lífsviðurværi sitt en sem betur fer hafa sumar atvinnugreinar komið nokkuð vel frá faraldrinum. Nægir þar að nefna fjölmargar verslanir og þjónustuaðila sem og þá sem starfa við sjávarafurðir. Það má ekki gleyma því að eftir að faraldurinn skall á þá stöðvuðust ferðalög Íslendinga erlendis sem gerði það að verkum að uppundir 200 milljarðar sem landsmenn eyddu á erlendri grundu komu inn í íslenskt hagkerfi og hjálpaði það verslun og þjónustu hér á landi.

En nú sér fyrir endann á þessum faraldri enda ganga bólusetningar hér á landi vel þessa dagana og er áætlað að hægt verði að aflétta öllum takmörkunum um mánaðarmótin júní/júlí ef ekkert óvænt kemur upp á eins og sóttvarnaryfirvöld hafa sagt opinberlega. Það horfir því til betri vegar hér á landi sem og um hina víðu veröld.

Ég er sannfærður um að ef það raungerist að bólusetningar gangi upp eins og að er stefnt muni hagkerfi okkar Íslendinga verða gríðarlega fljótt að taka við sér og milljónir ferðamanna muni verða komnir til landsins á nýjan leik áður en langt um líður. Nægir að nefna þá landkynningu sem Ísland hefur fengið á liðnum vikum vegna eldgossins á Reykjanesi sem og hið margfræga Húsavíkurlag sem sýnt var á dögunum á Óskarsverðlaunahátíðinni. Við eigum ekki að kvíða framtíðinni hvað ferðamenn áhrærir ef allt gengur upp hvað bólusetningar varðar.

 

Ágætu félagsmenn

Það var afar fróðlegt og í raun staðfesting á því sem stór hluti þjóðarinnar hefur lengi vitað að heyra háttsettan embættismann eins og seðlabankastjóra segja að Íslandi sé að miklu leyti stjórnað af sérhagsmunahópum.

Nægir að nefna að fyrir hrunið var Viðskiptaráð að státa sig af því að Alþingi hefði í 90% tilfella farið eftir tillögum Viðskiptaráðs hvað lagasetningar varðar.

Það blasir við að fjársterku fjármálaöflin sem tilheyra sérhagsmunaöflunum hafa stjórnað hér á landi og á það klárlega jafnt við útgerðarelítuna sem og fjármálaelítuna.

Það muna allir eftir markaðsvæðingu fjármálakerfisins fyrir hrun þar sem fjárglæframenn einkavæddu  gróðann og skattgreiðendur sátu uppi með tapið. Þessa sögu þekkjum við öll allt of vel. Íslensk heimili muna vel hvernig slegin var skjaldborg um fjármálakerfið á meðan íslenskum heimilum var fórnað á altari fjármálakerfisins.

Við Akurnesingar vitum líka hvernig útgerðarelítan svífst einskis þegar kemur að því að svipta fólk og sveitarfélög lífsviðurværi sínu og það fólk og sveitarfélög sem hafa byggt upp sjávarútveginn. En árið 2017 var nánast öllum aflaheimildum okkar Akurnesinga rænt um hábjartan daginn með skelfilegum afleiðingum fyrir þá sem byggðu afkomu sína á veiðum og vinnslu hér á Akranesi. En fyrirtækið Haraldur Böðvarsson sem stofnað var 1904 og hafði lifað af tvær heimsstyrjaldir þurfti að lúta í lægra haldi fyrir handónýtu regluverki í kringum sjávarauðlindina. Á einni nóttu var fyrirtæki sem greiddi laun sem námu 5,4 milljörðum tekið frá okkur og fært suður til Reykjavíkur.

Verkalýðshreyfingin verður að standa vörð um atvinnuöryggi fólksins í landinu og vinna bug á svona skemmdarverkum þar sem sérhagsmunaaðilar geta nýtt sér í eigin þágu sameiginlega auðlind þjóðarinnar - í þessu tilfelli sjávarauðlindina.

Ágætu félagar

Munum að öll þau réttindi sem íslenskt verkafólk telur í dag vera algerlega sjálfsögð, áunnust vegna þrotlausrar baráttu verkalýðshreyfingarinnar. Réttindi eins og veikindaréttur, orlofsréttur, fæðingarorlof, uppsagnarfrestur, lágmarkshvíld, orlofs- og desemberuppbætur og svona mætti lengi telja. Allt eru þetta réttindi sem hafa áunnist á liðnum árum og áratugum fyrir atbeina verkalýðshreyfingarinnar.

Stéttarfélögin gegna líka mjög veigamiklu hlutverki við að verja réttindi sinna félagsmanna, enda er leikurinn á milli atvinnurekenda og launamannsins afar ójafn þegar upp kemur ágreiningur um kaup, kjör og önnur réttindi.

Sem betur fer eru langflestir atvinnurekendur heiðarlegir en trúið mér, inn á milli eru til atvinnurekendur sem eru algerir drullusokkar og víla ekki fyrir sér að svína á sínum starfsmönnum eins og enginn sé morgundagurinn.

Ég vil í þessu samhengi upplýsa ykkur um að frá því að ný stjórn tók við Verkalýðsfélagi Akraness árið 2004 hefur félagið innheimt um 1 milljarð vegna kjarasamningsbrota á okkar félagsmönnum. Rétt er að geta þess að hér er ekki verið að taka tillit til þeirra margfeldisáhrifa sem sum málin héldu síðan áfram að skila okkar félagsmönnum.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness vílar ekki fyrir sér að verja réttindi okkar félagsmanna með kjafti og klóm ef minnsti grunur leikur á að verið sé að brjóta á réttindum þeirra.

Hins vegar er rétt að geta þess að stundum koma upp ágreiningsmál þar sem félagið og fyrirtæki á okkar félagssvæði þurfa að láta dómstóla skera úr um ágreiningsmál.

Félagið hefur á liðnum árum margoft þurft að stefna fyrirtækjum á okkar félagssvæði fyrir dómstóla vegna kjarasamningsbrota og ágreinings um túlkun ákvæða í kjarasamningum.

Á þessu sést að félagið vílar ekki fyrir sér að standa vörð um réttindi sinna félagsmanna ef minnsti vafi leikur á að verið sé brjóta á þeim. Það er rétt að geta þess að við höfum unnið nánast öll mál sem við höfum farið með fyrir dómstóla.

Þetta sýnir svo ekki verður um villst mikilvægi þess að vera aðili að öflugu stéttarfélagi til að verja hagsmuni sína og trúið mér Verkalýðsfélag Akraness lætur ekkert fyrirtæki fótum troða réttindi hjá okkar félagsmönnum.

 

Kæra launafólk

Trúið mér að það eru aðilar í íslensku samfélagi sem vilja veikja stéttarfélögin hér á landi og nægir í því samhengi að nefna hugmyndafræðina í kringum Salek samkomulagið sem Verkalýðsfélag Akraness fór fremst í broddi fylkingar við að brjóta á bak aftur.

Þótt það hafi tekist á sínum tíma að koma í veg fyrir að Salek samkomulagið yrði að veruleika eru enn margir með drauma um að koma því aftur af stað. Enda gengur sú hugmyndafræði út á að veikja og draga úr mætti stéttarfélaganna og gera verkalýðshreyfinguna miðstýrða þar sem völd stéttarfélaganna yrðu meira færð yfir til ASÍ og SA.

Þessi vegferð að færa völd frá stéttarfélögum yfir til ASÍ er reyndar löngu byrjuð enda hefur ASÍ á undanförnum árum verið að taka sér völd þrátt fyrir að engin lagastoð sé til staðar. Nægir að nefna í því samhengi að VLFA hefur verið í samningaviðræðum við Elkem á Grundartanga og komst að samkomulagi við fyrirtækið um að starfsmenn hefðu frjálst val um ráðstöfun á 3,5% af lífeyrisiðgjaldi sínu.

Forseti ASÍ og SA segja nei, þið megið ekki semja um ykkar lífeyrisréttindi í ykkar kjarasamningum því við sjáum um að semja um lífeyrismál. Rétt er að geta þess að forseti ASÍ vill alls ekki að launafólk hafi val um ráðstöfun á sínum lífeyri. VLFA hafnar algerlega slíkri forræðishyggju en aðalmálið er að ASÍ er að taka sér vald sem ekki nokkur lagastoð er fyrir enda skýrt kveðið á um í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur að samningsrétturinn liggur hjá stéttarfélögunum, ekki ASÍ.

Það er ömurlegt að örfáir aðilar innan verkalýðshreyfingarinnar vilji ekki gefa launafólki val um að ráðstafa sínum lífeyri. Nei, frekar að ástunda forræðishyggju sem gerir ekkert annað en að flækja lífeyriskerfið enn frekar og er þetta allt gert á grundvelli þess hversu mikilvæg samtrygging í lífeyriskerfinu sé.

Málið er að launafólk vill að stórum hluta setja 12% í samtryggingu og hafa val um að setja 3,5% í t.d. frjálsan viðbótarsparnað en rétt er að geta þess að það sem VLFA vill gera þvingar ekki nokkurn mann sem vill frekar setja 3,5% í samtrygginguna að gera slíkt, það eina sem VLFA vill er að fólk hafi val.

Í dag fer um 98% af 15,5% iðgjöldum launafólks á hinum almenna vinnumarkaði í samtrygginguna og er það vegna þess að kerfið er svo flókið að fólk skilur oft ekki hvað er í boði. Sem dæmi um hversu flókið kerfið er þá er til innan þess samtrygging, bundin séreign, tilgreind séreign og frjáls viðbótarsparnaður.

Ef þessi fámenni hópur innan ASÍ fengi að ráða þá færi allt í samtrygginguna og það þrátt fyrir að allir útreikningar sýni að í 90% tilfella tapar launafólk stórum upphæðum á að setja ekki 3,5% í séreign. Ástæðan er meðal annars samspil skerðinga frá Tryggingastofnun og lífeyrisgreiðslna. En hvað með allt erlenda verkafólkið okkar sem kemur til að starfa hér á landi, sumir tímabundið og aðrir lengur?

Jú, staðan er þannig að lífeyrissjóðurinn sem tilheyrir VLFA greiddi 10.658 manns lífeyri á árinu 2020 og er þá verið að tala um allan lífeyri, elli-örorku-maka-og barnalífeyri, rétt er að geta Þess af þessum 10.658 voru 6.622 sem fengu ellilífeyrir greiddan frá lífeyrissjóðnum.

Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að af þessum voru 472 sem búa erlendis núna sem eru orðnir 67 ára og hafa rétt til að hefja töku lífeyris hafa ekki sótt um hann. Þetta eru 7,13% af heildarfjölda þeirra sem taka ellilífeyri hjá lífeyrissjóðnum.

Hugsið ykkur að samtryggingarkerfið gerir það að verkum að erlenda fólkið okkar sem hingað kemur og starfar og greiðir í sjóðina virðist ekki vita um rétt sinn og sækir ekki um og er það þetta sem „samtryggingarfólkið“ vill að gerist, að fjármunir sem fólkið hefur sannarlega áunnið sér inn renni ekki til þeirra. Eitt er víst að ef fólkið hefði val þá væri alla vega á hreinu að 3,5% sem væri eyrnamerkt hverjum launamanni í formi séreignar myndi renna til erlendu starfsmannanna.

 

Ágætu félagar

Stéttarfélögin þurfa að halda áfram að stíga þétt og ákveðin skref í átt að því að tryggja að lágtekjufólk geti lifað af sínum mánaðarlaunum og framfleytt sér frá mánuði til mánaðar og haldið mannlegri reisn. En eins og staðan er í dag þá er slíku ekki til að dreifa þrátt fyrir að lífskjarasamningurinn hafi verið sá innihaldsríkasti sem gerður hefur verið fyrir lágtekjufólk um áratugaskeið.

Við þurfum að halda áfram á sömu braut og lífskjarasamningurinn þ.e.a.s að semja með krónutölum en ekki prósentum eins og gert var í lífskjarasamningnum, enda eru prósentur aflgjafi misskiptingar og óréttlætis og gera ekkert annað en að auka á ójöfnuð á íslenskum vinnumarkaði. Við þurfum einnig að halda áfram að tryggja lágt vaxtastig eins og okkur tókst að gera samhliða lífskjarasamningnum, enda nægir að nefna að þúsundir heimila hafa endurfjármagnað sig á liðnum árum og mánuðum og lækkað greiðslubyrði sína í sumum tilfellum um tugi þúsunda á mánuði.

Við verðum að halda áfram að berjast fyrir réttlæti, jöfnuði og gegn spillingu í íslensku samfélagi og í þeirri baráttu gegna stéttarfélögin og félagsmenn þeirra stóru hlutverki.

Að lokum þetta, félagsmenn stéttarfélaganna þurfa að standa vörð um sjálfstæði sitt því það eina sem við þurfum ekki á að halda er forræðishyggja og miðstýrð verkalýðshreyfing eins og þróunin hefur verið á Norðurlöndunum þar sem stéttarfélagsaðild er í frjálsu falli.

Enn og aftur innilega til hamingju með baráttudag verkafólks!

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image