• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
Apr

Ótrúleg vinnubörgð varðandi breytingu á lögum um lífeyrissjóði

Á fimmtudaginn kom eins og þruma úr heiðskíru lofti frumvarp um breytingar á lögum um lífeyrissjóði. Þetta frumvarp lýtur að því að því að hækka lögfestingu á lágmarksiðgjaldi til lífeyrissjóðanna úr 12% í 15,5%. Í frumvarpinu er einnig kveðið á um að iðgjaldið renni inn í samtrygginguna en launafólk hafi heimild til að setja 3,5% af 15,5% í svokallaða tilgreinda séreign en það þurfi þá að hafa samband við viðkomandi lífeyrissjóð kjósi það að gera svo.

Það er einnig kveðið á um í frumvarpinu að launafólk eigi ekki að byrja að greiða í lífeyrissjóð 16 ára eins og nú sé heldur verði það við 18 ára aldur. Formaður spyr: eiga þá laun þeirra sem eru á aldrinum 16 til 18 ára að hækka sem nemur 11,5% eða eiga atvinnurekendur að hagnast á þessari breytingu sem nemur gjaldfrjálsum iðgjöldum upp á 11,5% í 2 ár?

Þetta þýðir sparnað fyrir atvinnulífið upp á tæpar 800 milljónir á ári. Hugsið ykkur það á að taka 800 milljónir af unga fólkinu og færa yfir til atvinnurekenda.

Ekkert mál að fresta greiðslum í lífeyrissjóði úr 16 árum í 18 ár en látið þá unga fólkið fá þessar 800 milljónir annaðhvort í formi 11,5% launahækkunar eða sem inneign í séreignasjóði.

Ekki „stela“ 800 milljónum af unga fólkinu á ári með því að lauma svona frumvarpi í gegn!

Það er fleira sem er alveg ótrúlegt í þessu frumvarpi en eins og lífeyrisþegar vita er lífeyririnn verðtryggður ef þannig má að orði komast og hann tekur breytingum samkvæmt neysluvísitölu Hagstofunnar og koma þær breytingar fram mánaðarlega í núgildandi lögum. En í frumvarpinu er kveðið á um að hækkun á lífeyri launafólks komi ekki til framkvæmda nema einu sinni á ári. Þannig að lífeyrisþegar fá ekki verðbætur ofan á verðbætur mánaðarlega eins og nú er.

Þetta þýðir að einstaklingur sem er 67 ára og er með 350 þúsund í lífeyri verður af verðbótum sem nema tæpum 70 þúsundum á ári miðað við 4% verðbólgu.

Frá 67 ára töku lífeyris til 83 ára aldurs væri búið að hafa af þessum lífeyrisþega rétt tæpar 2 milljónir króna!

Ekki lauma fram frumvarpi sem „stelur“ af lífeyrisþegum 2 milljónum af lífeyri þeirra með þessum breytingum á 16 ára tímabili á töku lífeyris. Væri fróðlegt að vita sparnað lífeyrissjóðanna ef þessi breyting færi í gegn. Ugglaust er um marga milljarða að ræða!

Já, ekkert mál breyta lögum í þessa átt hjá lífeyrisþegum en að gera slíkt á verðtryggðum húsnæðisskuldum heimilanna nei, það kemur þessari ríkisstjórn ekki til hugar. Ekkert mál að leggja verðbætur ofan á skuldir heimilanna í hverjum mánuði en það þarf að stoppa af að lífeyrisþegar fái verðbætur ofan á verðbætur í hverjum mánuði.

Þetta er alls ekki það eina sem er algjört rugl í þessu frumvarpi því það er tryggt að t.d. sjómenn sem eru með 12% hámark í lífeyrissjóð fari ekki í 15,5%, þá á að undanskilja frá lögunum. Já, stjórnvöld vilja koma vel fram við útgerðamenn og ekki leggja frekari álögur á þá.

Verkalýðsfélag Akraness hefur lengi barist fyrir því að launafólk hafi aukið val og frelsi til að ákvarða hvar og hvernig það ráðstafar sínum lífeyri. VLFA hefur barist fyrir því að auka rétt fólks til að setja sinn lífeyri í svokallaða frjálsa séreign en í dag er lágmarks iðgjaldið 12% en flestir eru að greiða 15,5% í iðgjöld. VLFA hefur barist fyrir því að launafólk ráði sjálft hvert það setur 3,5% sem eru umfram lágmarks iðgjaldið eins og lögin kveða á um í dag. Það eigi að hafa val hvort það setur það í samtrygginguna eða frjálsa séreign.

Nei þetta má ekki, allt skal renna til lífeyrissjóðanna og síðan á að lögfesta og flækja lífeyriskerfið enn frekar með einhverjum viðbótar bastarði sem ber heitið tilgreind séreign.

Það sorglega í þessu er að ekkert samráð var haft við stéttarfélögin sem hafa lögvarða hagsmuni af því að semja um kaup og kjör sinna félagsmanna. En lífeyrisréttindi eru klárlega hluti af kjarasamningum stéttarfélaganna og það er á þeirra valdsviði samkvæmt öllum gildandi lögum.

Málið er að VLFA var langt komið með að semja við Elkem Ísland á Grundartanga um að 12% af 15,5% iðgjaldinu færi í samtrygginguna og starfsmenn mættu velja að setja 3,5% í frjálsa séreign ef þeir vildu svo.

Samtök atvinnulífsins og forseti ASÍ segja nei, það eruð ekki þið sem sjáið um að semja um lífeyrismál, þau eru á forræði SA og ASÍ. En orðrétt sagði forseti ASÍ í pósti til formanns um daginn: „Lífeyrissjóðirnir hvíla á kjarasamningi á milli Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands en samningsumboðið er ekki hjá hverju stéttarfélagi fyrir sig eins og löngu er orðið ljóst.“

Já stéttarfélögunum kemur þetta bara ekkert við né félagsmönnum þeirra þrátt fyrir að öll lög kveði á um annað.

Hér er um gríðarlega hagsmuni að ræða fyrir launafólk og því hefur félagið falið lögmanni VLFA að stefna ASÍ og Samtökum atvinnulífsins sem segja að samningsumboð stéttarfélaganna nái ekki yfir lífeyrismál í kjarasamningum. Slíkt þvaður hefur enga lagastoð!

Formaður VLFA skal fúslega viðurkenna að þessi skefjalausa meðvirkni með lífeyrissjóðskerfinu af hálfu forystu ASÍ er með öllu óskiljanleg. Formaður vill að haft verði samráð við stéttarfélögin sem hafa lögvarða hagsmuni í þessum málum og að lágmarksiðgjald verði áfram 12% en launafólk fái heimild til að ráðstafa viðbótinni sem er 3,5% í frjálsa séreign kjósi það svo.

VLFA hafnar því að SA og ASÍ geti tekið yfir lögvarða hagsmuni félagsins við að gæta að lífeyrisréttindum félagsmanna VLFA og á þeirri forsendu verður þessum aðilum stefnt fyrir félagsdóm.

Formann langar að spyrja ykkur launafólk: Viljið þið hafa val um að ráðstafa 3,5% af 15,5% í frjálsa séreign? Það er mitt mat að launafólk verði að láta í sér heyra til að koma í veg fyrir að fámenn klíka ákveði og miðstýri rétti launafólks varðandi hvar og hvernig það vill ráðstafa sínum lífeyri.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image