• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Okt

Ábyrgðin liggur 100% hjá forsvarsmönnum Norðuráls

Nú líður senn að því að starfsmenn Norðuráls séu búnir að vera kjarasamningslausir og án launahækkana í 10 mánuði. Það er skoðun formanns VLFA að slíkt framferði af hálfu eigenda Norðuráls gagnvart starfsmönnum sé með öllu ólíðandi og algjört virðingarleysi.

Ugglaust spyrja margir sig að því að það geti vart verið öðrum samningsaðilanum um að kenna að ekki næst að ganga frá kjarasamningi milli deiluaðila. Í því samhengi ætlar formaður Verkalýðsfélags Akraness algerlega að halda því fram að svo sé eða með öðrum orðum samningsvilji forsvarsmenna Norðuráls í þessari kjaradeilu er við frostmark ef þannig má að orði komast.

En af hverju segir formaður VLFA það, jú það er vegna þess að eina sem Verkalýðsfélag Akraness er að fara framá við eigendur Norðuráls er að launabreytingar starfsmanna Norðuráls taki sömu launabreytingum og um var samið í svokölluðum Lífskjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði. Hvorki meira né minna en þar var um samið. Er það óeðlileg krafa að óska eftir því að launahækkanir starfsmanna Norðuráls taki sömu launabreytingum og 99% af íslenskum vinnumarkaði hefur undirgengist að gera? Nei að sjálfsögðu er það ekki óeðlileg krafa enda er hún sanngjörn,réttlát og í fullu samræmi við það sem íslenskur vinnumarkaður ákvað að gera.

Það er einnig mikilvægt að starfsmenn Norðuráls og reyndar allur almenningur fái upplýsingar um að VLFA hefur tekið til greina allar athugasemdir Norðuráls um hvernig eigi að framkvæma og útfæra lífskjarasamningshækkanir yfir á það launakerfi sem er í gildi hjá starfsmönnum Norðuráls. Þrátt fyrir að VLFA hafi tekið allar þær útfærslur til greina þá dugar það ekki til, enda segja forsvarsmenn Norðuráls að launabreytingar samkvæmt lífskjarasamningum sé einfaldlega „of miklar“ og séu ekki tilbúin til að hækka launa starfsmanna sinna til samræmis við það sem öll fyrirtæki á íslenskum vinnumarkaði hafa samþykkt að undirgangast þegjandi og hljóðalaust.

Norðurál hefur boðið að hækka byrjandataxta verkafólks sem nemur 19% minna en útfærsla á lægsta samnefnara lífskjarasamningsins kveður á um. Rétt er þó að geta þess að Norðurál hefur boðið eingreiðslu sem kæmi til útborgar árið 2021 eða 2022 með vissum skilyrðum þó. Þessi eingreiðsla væri þá hugsuð til að koma til móts við þann mun sem er á milli lífskjarasamningsins og þess sem Norðurál er tilbúið að bjóða.

Hví í ósköpunum ættu starfsmenn Norðuráls sem starfa hjá afar öflugu alþjóðlegu stórfyrirtæki að þurfa að gefa slíkan afslátt á sínum launahækkunum? Hví ættu þeir að samþykkja einhverja „eingreiðslu“ sem eðli málsins kemur bara einu sinni til framkvæmda og það með einhverjum skilyrðum.

Það eru ekki nokkrar forsendur fyrir slíku og nægir að nefna í því samhengi að starfsmenn hafa skilað eigendum þessa fyrirtækisins um 100 milljörðum í hagnað frá því að starfsemi fyrirtækisins hóf starfsemi hér landi árið 1998. Það liggur líka fyrir að rekstur Norðuráls gengur um þessar mundir mjög vel og sem dæmi liggur fyrir að launakostnaður fyrirtækisins hefur lækkað um 16% frá áramótum bara vegna gengisbreytinga.

Að öllu þessu sögðu þá liggur fyrir að eigendur Norðuráls bera 100% ábyrgð á því að ekki sé enn hafi tekist að ganga frá kjarasamningi til handa starfsmönnum Norðuráls. Formanni finnst það svívirðileg framkoma af hálfu forsvarsmanna Norðuráls að ætlast til þess af sínum starfsmönnum að þeir fái ekki sömu launahækkanir og allur íslenskur vinnumarkaður hefur undirgengist að gera.

Það mun ekki gerast á vakt formanns Verkalýðsfélags Akraness að ganga frá kjarasamningi þar sem launabreytingar uppfylla ekki lágmarksútfærslu á lífskjarasamningum. Það mun heldur ekki gerast á vakt formanns VLFA að grunnlaunataxtar starfsmanna Norðuráls sem vinna við krefjandi og hættulegar aðstæður oft á tíðum sogist niður fyrir lægstu launataxta á íslenskum vinnumarkaði. Það blasir við að grunnlaunataxtar starfsmanna Norðuráls eru á góðri leið með að sogast þangað niður.

Vissulega eru heildarlaun starfsmanna ágæt en það endurspeglast af miklu vinnuframlagi og yfir 20 tímum á mánuði við að koma sér til og frá vinnu. Einnig liggur fyrir að starfsmenn vinna 26 fasta yfirvinnutíma á mánuði og vaktarmenn eru að vinna alla daga ársins jafnt á degi sem nóttu og á þeirri forsendu verða heildarlaun starfsmanna viðunandi. En heildarlaun með miklu vinnuframlagi þar sem unnið er alla daga ársins kallar ekki á það að eigendur Norðuráls geti komist upp með að hækka ekki grunnlaun starfsmanna eins og allur vinnumarkaðurinn hefur samþykkt að gera.

Verkalýðsfélag Akraness, ætlar ekki, getur ekki og mun ekki skrifa undir lægri launahækkanir á launatöxtum heldur en lágmarksútfærsla á lífskjarasamningum kveður á um og munar þar eins og áður hefur komið fram heilum 19% og sá mismunur verður ekki brúaður með eingreiðslu!

Nú liggur fyrir að verkfall mun hefjast 1. desember ef eigendur Norðuráls brjóta ekki odd af oflæti sínu og samþykkja þá sjálfsögðu og réttlátu kröfu að komið sé fram að virðingu við starfsmenn Norðuráls og þeir fái sömu launahækkun og aðrir íslenskir launamenn og konur.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image