• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
24
Jun

Fundað hjá ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings Norðuráls í gær

Í gær var fundur í kjaradeilu félagsins við Norðurál haldinn hjá ríkissáttasemjara en nú eru liðnir um 6 mánuðir frá því að kjarasamningur við Norðurál rann út og enn er langt í land að takist að ná saman nýjum kjarasamningi.

Það er reyndar umhugsunarefni að ekki sé búið að ganga frá nýjum kjarasamningi því krafa Verkalýðsfélags Akraness byggist á lífskjarasamningunum eins og uppundir 95% af íslenskum vinnumarkaði hefur undirgengist að gera.

Því miður hafa forsvarsmenn Norðuráls með aðstoð Samtaka atvinnulífsins hafnað að semja með sambærilegum hætti og gert var við sveitarfélögin, ríkið og aðra samninga sem byggjast á lífskjarasamningum. Þeir hafa hins vegar lagt ofur áherslu á að samið verði með sama hætti og gert var í síðasta samningi sem byggðist á því að launabreytingar tóku mið af 95% af því sem launavísitala Hagstofunnar hækkaði um árlega.

En því miður hefur launavísitalan ekki verið að skila sömu launabreytingum eins og launahækkanir á launatöxtum hefur skilað á liðnum árum og munar þar umtalsverðu. Sem dæmi þá hefur launavísitalan hækkað frá 1998 til dagsins í dag um 336% á meðan launataxtar á hinum almenna vinnumarkaði hefur hækkað um 388%. En ef tekið er tillit til þess að starfsmenn Norðuráls hafa einungis fengið 95% af launavísitölunni þá myndi það þýða ef sama fyrirkomulag hefði verið við lýði frá 1998 að launabreytingar starfsmanna hefðu verið 319% en launataxtar á hinum almenna vinnumarkaði hafa hækkað um 388%.

Á þessu sést að það er alls ekki ráðlegt fyrir verkafólk í Norðuráli að tengja launahækkanir sýnar við launavísitöluna í ljósi þess að taxtalaun í landinu hafa hækkað umtalsvert meira en rétt er að geta þess að launakerfi starfsmann Norðuráls byggist upp á launataxtakerfi.

Næsti formlegi samningafundur hjá ríkissáttasemjara er á næsta mánudag og er morgunljóst að á þeim fundi mun endanlega koma í ljós hvort deiluaðilar eru að fara að ná saman eða hvort það stefni í nokkuð hörð átök á vinnustaðnum. Það er einnig morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness ætlar ekki, getur ekki og vill ekki semja um lakari launabreytingar en gert var í lífskjarasamningum og þeim skilaboðum hefur formaður VLFA komið rækilega til skila til forsvarsmanna Norðuráls.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image