• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Dec

Verkalýðsfélag Akraness vinnur mál gegn Sambandi íslenskra sveitafélaga fyrir Félagsdómi

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá stefndi Verkalýðsfélag Akraness Sambandi íslenskra sveitafélaga fyrir félagsdóm. Málið laut að því að í kjarasamningi sem gerður var 2016 samþykkt að verða við ósk Sambands íslenskra sveitafélaga að láta kjarasamninginn gilda ekki til 1. Janúar 2019 heldur til 31. mars 2019 eða nánar tilgetið að lengja samninginn um þrjá mánuði.

Til að bæta starfsmönnum upp það tekjutap sem hlaust við þessa þriggja mánaða lengingu á samningum var starfsmönnum boðin 42.500 króna eingreiðsla fyrir 100% starf sem átti að koma til útborgunar 1. febrúar 2019, en orðrétt hljóðaði ákvæðið svona:

„Grein 1.2. hljóði svo: Sérstök eingreiðsla, kr. 42.500, greiðist þann 1. febrúar 2019 hverjum starfsmanni miðað við fullt starf sem er við störf í desember 2018 og er enn í starfi í janúar 2019. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfsíma og starfshlutfall í desember“

Það ótrúlega gerist síðan að þegar eingreiðslan er greidd út þá greiða Akraneskaupstaður og Hvalfjarðasveit hana ekki út til svokallaðs tímakaupsfólks og þegar VLFA kallar eftir skýringum frá þessum aðilum hverju það sætti að greiðsla hafi ekki borist til tímakaupsfólk.

Svarið sem félagið fékk var að þetta væru tilmæli frá Sambandi íslenskra sveitafélaga að tímakaupsfólk ætti ekki þennan rétt, sem var vægast sagt undarleg niðurstaða.

Félagið hafði samband við Samband íslenskra sveitafélaga og kallaði eftir útskýringum á þessum tilmælum til sveitafélaga og eftir nokkra fundi þar sem sambandið óskaði eftir að fá að skoða þessa ákvörðun sína betur var niðurstaðan að hún skildi standa óhögguð. Rök þeirra voru m.a. þau að Reykjavíkurborg og Ríkið hafi ekki greitt þessa eingreiðslu til tímakaupsfólks.

Nú er hins vegar dómur fallinn í Félagsdómi þar sem tekið var undir allar kröfur Verkalýðsfélags Akraness en í dómsorði Félagsdóms segir orðrétt:

"Viðurkennt er að félagsmenn stefnanda Verkalýðsfélags Akraness, sem voru við störf hjá stefndu, Akraneskaupstað og Hvalfjarðasveit, í desember 2018 og voru enn í starfi í janúar 2019 og unnu starf sem fellur undir kafla 1.4. í kjarasamningi réttargæslustefnda, Samband íslenskra sveitafélaga, og stefnanda sem upphafslega átti að gilda frá 1. maí 2011 til 30. Júní 2014, eigi rétt á eingreiðslu samkvæmt grein 1.2 í kjarasamningum, eins og henni var breytt með 5. kafla samkomulagsins sömu aðila um breytingu og framlengingu kjarasamningsins, sem gilti frá 1. janúar 2016 til 31. mars 2019

Stefndu Akraneskaupstaður og Hvalfjarðasveit, greiði Verkalýðsfélagi Akraness, 500.000 krónur í málskostnað."

Formaður er afar ánægður með þennan dóm sem sýnir enn og aftur að félagið stendur vörð um réttindi sinna félagsmanna í hvívetna og vílar ekki fyrir sér að fara með mál fyrir dómstóla til að verja þau réttindi.

Nú mun félagið gera þá skýlausu kröfu að þessi eingreiðsla verði greidd eins fljótt og kostur er til allra þeirra sem heyra undir dómsorð Félagsdóms

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image