• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Nov

Framtíð Elkem Ísland á Grundartanga ræðst á næstu 12 til 14 mánuðum

Í gær fundaði formaður með starfsmönnum Elkem Ísland á Grundartanga vegna komandi kjarasamninga en kjarasamningur starfsmanna Elkem rennur út um komandi áramót.  

Fundirnir voru haldnir í mötuneyti fyrirtækisins, þar sem farið var yfir stöðuna en það er skemmst frá því að semja að nú sé verið að semja þegar viðsjárverðir tímar eru framundan hjá fyrirtækinu. Eins eins og allir vita þá náði Landsvirkjun að knýja í gegn gríðarlega hækkun á raforkuverði til fyrirtækisins á grundvelli einokunnar.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness opnaði fundinn á því að fara yfir það að forstjóri fyrirtækisins hefur ítrekað sagt að fyrirtækið treystir sér ekki til að gera til lengri kjarasamning en í 12 mánuði vegna þeirra óvissu sem er uppi eftir að raforkukostnaður fyrirtækisins snarhækkaði.

Fram kom í máli formanns að þessi hækkun á raforku nemi um 1,3 milljörðum til viðbótar þeim 3 milljörðum sem fyrirtækið var að greiða fyrir þau 127 MW sem fyrirtækið notar í sína framleiðslu og er þessi hækkun yfir 43 % hækkun.

Það kom fram í yfirferð formanns að í dag nemi launakostnaður fyrirtækisins um 2,2 milljörðum á ári og því er þessi hækkun á raforkunni um 1,3 milljarð um 59% af öllum launakostnaði, en það er ígildi þess að Elkem myndi ráða um 118 nýja starfsmenn og hafa ekkert fyrir þá að gera annað en að greiða þeim laun.

Það kom líka fram hjá formanni að meðaltalshagnaður Elkem frá árinu 1998 til ársins 2018 er 789 milljónir á ári og því þurfi ekki mikla snillinga í hagfræði til að sjá að svona meðaltalshagnaður dugar vart til að mæta raforkuhækkun upp á 1,3 milljarð á ári og með þessari hækkun er verið að þurrka alla framlegð fyrirtækisins upp. Formaður sagði að með þessari hækkun á raforku sést glöggt að staðan er alvarleg, enda er verið að kippa samkeppnishæfni fyrirtækja í orkusæknum iðnaði í burtu með þetta mikilli hækkun.

Það var ítrekað aftur það sem forstjóri Elkem hefur sagt ekki bara við formann VLFA heldur einnig við trúnaðarmenn um að það ráðist á næstu 12 til 14 mánuðum hver framtíð fyrirtækisins verður hér á landi. En á þessum forsendum óvissunnar vill Elkem ekki gera lengri kjarasamning en til 12 mánaða og forstjóri Elkem hefur líka sagt að þeir hafi vegna þessa ekki svigrúm til mikilla launabreytinga. Enda hefur fyrirtækið nú þegar gripið til mjög mikilla hagræðingaraðgerða til að mæta þessum aukna rekstrarkostnaði vegna hækkunar á raforku.

Formaður fór yfir að búið er að tilkynna starfsmönnum að fyrirtækið ætlar að grípa til róttækra mótvægisaðgerða t.d. með því að lækka launakostnað um 322 milljónir á ári sem er lækkun um rúm 15%. En það verður m.a. gert með því að fækka starfsmönnum um 15%

Einnig hefur fyrirtækið tilkynnt um fjárfestingarstopp, nema það sem lýtur að nauðsynlegu viðhaldi búnaðar og einnig mun þetta koma niður á þeim fyrirtækjum sem eru að þjónusta fyrirtækið. Á þessu sést að staðan er alvarleg enda er verið að kippa samkeppnishæfni fyrirtækja í orkusæknum iðnaði í burtu með þetta mikilli hækkun. Það er ekki bara að raforkana sé að hækka hjá Elkem Ísland heldur er hún einnig að hækka gríðarlega hjá Norðuráli og nemur sú hækkun um 4 milljörðum á ári til viðbótar þeim 12 milljörðum sem þeir eru að greiða fyrir orkuna fyrir nýjan raforkusamning. Bara raforkuhækkun hjá Norðuráli og Elkem nemur samtals um 5,3 milljörðum á ári, en það er meira en allur sjávarútvegur greiðir í auðlindargjöld á næsta ári sem er um 5 milljarðar.

Farm kom í máli formanns að staðan væri gríðarlega erfið og mikilvægt að finna lausn og ná að semja þannig að allir geti verið á eitt sáttir. Það kom fram í máli formanns að hann er afar ósáttur ef það á að koma í hlut starfsmanna að taka þátt í að greiða fyrir þessa óbilgjörnu hækkun á raforkukostnaði fyrirtækisins.

En starfsmenn voru sammála um að finna leið þar sem farin yrði blönduð leið að launahækkun og auknu fríi starfsmanna þannig að starfsmenn myndu fá hækkun sem nemur ígildi hækkunar launavísitölunnar á síðustu 12 mánuðum og er nú verið að reyna að finna leið til að loka þeim hugmyndum.

Það er algerlega óþolandi og ólíðandi að ríkisfyrirtæki í einokunarstöðu eins og Landsvirkjun sé að ógna lífsviðurværi og atvinnuöryggi þúsunda starfsmanna í orkusæknum iðnaði með þessari græðgisvæðingu sem þar er ástunduð þegar kemur að endurnýjun á raforkusamningum fyrirtækja í þessum iðnaði.

Það er með ólíkindum að standa í þeim sporum að framtíð þessa mikilvæga fyrirtækis á okkar félagssvæði skuli ráðast á næstu 12 til 14 mánuðum vegna þess að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun er nánast búið að eyðaleggja alla samkeppnisstöðu fyrirtækisins gagnvart öðrum fyrirtækjum innan samsteypunnar.

Verkalýðsfélag Akraness ætlar að berjast fyrir því að þetta fyrirtæki fái að halda áfram rekstri hér á landi og haldi áfram að vera okkur Akurnesingum jafnmikilvægt og það hefur verið síðustu 40 ár.

Við munum finna lausn á þessari kjaradeilu og berjast síðan til síðasta manns um að tryggja áframhaldandi samkeppnishæfni þessa fyrirtækisins hér á landi. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image