• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15

Formaður VLFA fundaði í ráðherrabústaðnum í dagForsætisráðherra boðaði formann Verkalýðsfélags Akraness til fundar í morgun í ráðherrabústaðnum, en ráðherra hefur verið að funda með nokkrum aðilum vinnumarkaðarins. Með fundunum vildi ráðherra fá fram sjónarmið og hugmyndir þessara aðila í þeim tilgangi að fá sem gleggsta yfirsýn yfir stöðu á vinnumarkaði. Rétt er að geta þess að til stóð að Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR yrði einnig á fundinum, en því miður komst hann ekki þar sem hann er erlendis. Því fundaði formaður VLFA einn með forsætisráðherranum í morgun og stóð fundurinn yfir í um klukkutíma.

Formaður VLFA vill koma á framfæri hrósi til forsætisráðherra fyrir að eiga frumkvæði að þessum fundi og gefa formanni VLFA þannig tækifæri til að koma áherslum og sjónarmiðum félagsins á framfæri við stjórnvöld. Það hefur að öllum líkindum ekki farið framhjá neinum að Verkalýðsfélag Akraness hefur alls ekki verið sammála forystu ASÍ í mörgum málum er lúta að hagsmunum launafólks eins og t.d. hugmyndum um nýtt vinnumarkaðsmódel í anda SALEK samkomulagsins.

Á fundinum voru fjölmörg atriði til umræðu sem lúta að hagsmunum verkafólks almennt sem og þeir atburðir sem tengjast atvinnumálum okkar Akurnesinga, en eins og flestir vita hafa stór skörð verið höggvin í atvinnulíf okkar Skagamanna á liðnum vikum og árum. Formaður kom því á framfæri við forsætisráðherra að ef það á að nást sátt á vinnumarkaði þá þurfi nokkur grundvallaratriði að koma til:

- Í fyrsta lagi þarf að hækka kjörin hjá þeim tekjulægstu þannig að þau dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út.
- Í öðru lagi  þarf að hætta að nota prósentuhækkanir í kjarasamningum og semja þess í stað um krónutöluhækkanir, enda eru prósentuhækkanir aflgjafi misskiptingar á íslenskum vinnumarkaði.
- Í þriðja lagi þarf að lækka húsnæðisvexti niður í 2% og afnema verðtryggingu, eða í það minnsta að taka húsnæðisliðinn út úr neysluvísitölunni hvað varðar lög um vexti og verðtryggingu á fjárskuldbindingum heimilanna.
- Í fjórða lagi þarf að lækka kostnaðarhlutdeild almennings í heilbrigðisþjónustunni verulega.

Formaður sagði við forsætisráðherra að ef koma ætti á sátt á vinnumarkaði þá þurfi þessi fjögur atriði í það minnsta að koma til og mun Verkalýðsfélag Akraness alls ekki taka þátt í neinni sátt á vinnumarkaði sem byggist á svokölluðu Salek samkomulagi sem gengur út á að skerða samningsfrelsi launafólks með því að beisla og skerða möguleika launafólks til að sækja launahækkanir.

Formaður kom líka inn á hræsnina hjá alltof mörgum stjórnendum fyrirtækja sem eru með margar milljónir í laun á mánuði og tala síðan um mikilvægi þess að beisla þurfi launahækkanir í almennum kjarasamningum. Hann nefndi líka við ráðherra að almenningur í þessu landi líður það t.d. ekki mætingarbónusa á borð við þann sem greiddur var í Framtakssjóði Íslands upp á 20 milljónir fyrir það eitt að framkvæmdastjórinn náði þriggja ára starfstíma hjá sjóðnum. Hann fór líka yfir ofurlaun sumra framkvæmdastjóra lífeyrissjóðanna sem ná allt að 43 milljónum á ári og einnig nefndi hann ofurlaun sumra forstjóra á íslenskum vinnumarkaði sem nema tugum milljóna ári. Það mun aldrei nást sátt á meðal almenns launafólks um nýtt vinnumarkaðsmódel ef þessi misskipting og óréttlæti heldur áfram.

Formaður kom síðan inn á þær hamfarir sem við Akurnesingar höfum þurft að þola á undanförnum vikum og árum í okkar atvinnumálum.  Formaður rifjaði það upp að árið 2011 hafi Sementsverksmiðjan hætt starfsemi, en þar störfuðu þegar mest lét uppundir 180 manns. Það sem er að gerast þessa daganna er svo sú ákvörðun HB Granda að hætta landvinnslu á Akranesi. Formaður upplýsti forsætisráðherra um það að árið 2004, eða fyrir sameiningu Haraldar Böðvarssonar við Granda, hafi starfað um 350 manns hjá fyrirtækinu og Haraldur Böðvarsson var að greiða 2 milljarða í laun.  Núna er þetta allt farið og sagði formaður að honum væri það mjög til efs að nokkurt sveitarfélag hefði orðið fyrir jafnmiklum áföllum í atvinnumálum á svo skömmum tíma.

Formaður fór líka yfir það að við höfum ekki eingöngu misst þessi fyrirtæki úr okkar samfélagi heldur gengur Elkem Ísland erfiðlega að ganga frá raforkusamningi við Landsvirkjun, en samningurinn við fyrirtækið rennur út í mars 2019. Elkem Ísland treysti sér ekki til að gera 4 til 5 ára kjarasamning við Verkalýðsfélag Akraness í síðasta mánuði vegna óvissu um raforkumál fyrirtækisins og gildir samningurinn því einungis fram til mars 2019.

Formaður greindi forsætisráðherra frá því að hann hefði verulegar áhyggjur af þessari stöðu og byggir hann áhyggjur sínar á skrifum Ketils Sigurjónssonar sem hefur verið launaður verktaki hjá Landsvirkjun en hann hefur skrifað að vel megi áætla að raforkusamningur Elkem Ísland muni hækka um 100% árið 2019.  Ketill hefur skrifað að raforkureikningur Elkem muni jafnvel hækka um 2 til 2,5 milljarða á ári, til viðbótar þeim 2 milljörðum sem fyrirtækið er að greiða fyrir raforkuna í dag. Ef eitthvað er að marka skrif Ketils sem titlar sig sérfræðing um orkumál og hefur verið eins og áður sagði á launaskrá hjá Landsvirkjun þá er ljóst að allur rekstrargrundvöllur fyrirtækisins verður lagður í rúst og vel það, ef af þessu verður.

Nægir að nefna í því samhengi að það sem Ketill áætlar að raforkusamningur Elkem muni hækka um er meira en allur launakostnaður fyrirtækisins á ári sem er í dag um 2 milljarðar. Þessu til viðbótar er meðaltalshagnaður Elkem rétt rúmar 500 milljónir á ári frá árinu 1998. Hvernig í himninum á rekstur Elkem að geta gengið upp ef hækka á raforkuna um 100% sem er uppundir 2 milljörðum meira en sem nemur meðaltalshagnaði fyrirtækisins á síðustu 20 árum?

Það þarf ekki neinn sérfræðing til að sjá að verið er að ógna rekstrarafkomu þessa fyrirtækis gróflega  ef spá Ketils Sigurjónssonar gengur eftir um 100% hækkun á raforkuverði, og jafnvel hægt að segja að henni verði hreinlega slátrað ef af verður. Formaður fór yfir það með forsætisráðherra að ef eitthvað er að marka þessi skrif sérfræðingsins í orkumálum um hækkun á raforkuverði um allt að 100% þá skjóti það skökku við í ljósi þess að raforkuverð í Kanada, Norðurlöndum og Þýskalandi hefur lækkað um 50% á liðnum misserum.

Formaður taldi mjög brýnt að fara yfir þessar áhyggjur vegna atvinnuöryggis okkar Akurnesinga með forsætisráðherra enda er það hlutverk stéttarfélaga að verja kjör og atvinnuöryggi sinna félagsmanna. Við Skagamenn höfum þurft að þola nóg hvað varðar skerðingar á atvinnumöguleikum okkar svo ekki bætist við óvissa um framtíð Grundartangasvæðisins vegna glórulausrar græðgi hjá einokunarfyrirtækinu Landsvirkjun!

Þetta var mjög góður fundur og mikilvægt að geta komið hagsmunamálum launafólks milliliðalaust til forsætisráðherra með þessum hætti og þetta framtak hans að heyra í fulltrúum launafólks til fyrirmyndar.

Published in Fréttir
Friday, 09 June 2017 14:16

Sjómannadagurinn 2017

Sjómannadagurinn verður haldinn hátíðlegur um allt land á sunnudaginn kemur. Hefð er fyrir því að Verkalýðsfélag Akraness gefi leikskólabörnum harðfisk í tilefni dagsins og í morgun fór formaður félagsins fyrir hönd sjómanna á alla leikskóla bæjarins með harðfiskpoka handa börnunum og var hvarvetna tekið vel á móti honum. Hægt er að sjá myndir frá heimsóknunum hér.

Á sjálfan sjómannadaginn verður dagskrá með hefðbundnu sniði. Verkalýðsfélag Akraness mun að vanda annast minningarstund við minnismerki um týnda sjómenn í kirkjugarðinum kl. 10:00. Að henni lokinni verður hátíðarguðsþjónusta í Akraneskirkju kl. 11 þar sem sjómaður verður heiðraður fyrir störf sín, en í ár er það Ingimar Magnússon, fyrrv. skipstjóri, sem hlýtur heiðursmerki Sjómannadagsráðs. Að messu lokinni verður gengið fylktu liði að minnismerki sjómanna á Akratorgi og blómsveigur lagður að því eftir stutta athöfn.

Aðrir dagskrárliðir eru fjölmargir og má þar til dæmis nefna dorgveiðikeppni, róðrarkeppni, dýfingarkeppni, kaffisölu Slysavarnardeildarinnar Lífar og fjölskylduskemmtun á hafnarsvæðinu svo eitthvað sé nefnt, og eru bæjarbúar hvattir til að taka þátt í hátíðahöldunum. Upplýsingar um dagskrána er að finna á heimasíðu Akraneskaupstaðar:

Dagskrá sjómannadagsins á Akranesi 2017

Kl. 9:00-18:00
Frítt í sund í Jaðarsbakkalaug

Kl. 10:00
Minningarstund við minnismerki um týnda sjómenn í kirkjugarði.

Kl. 10:00-18:00  
Frítt í Akranesvita. Ljósmyndasýning Hildar Björnsdóttur prýðir veggi vitans.

Kl. 10:30
Á Breið afhenda félagar í Slysavarnardeildinni Líf fulltrúa Akraneskaupstaðar björgunarhringi að gjöf.

Kl. 11:00  
Sjómannadagsmessa í Akraneskirkju, sjómaður heiðraður. Blómsveigur lagður að minnismerki sjómanna á Akratorgi að lokinni athöfn.

Kl. 11:00
Dýfingakeppni á vegum Sjóbaðsfélags Akraness. Keppendur og áhorfendur safnast saman við Aggapall við Langasand. Dýfingarnar munu fara fram af nýju björgunarskipi Björgunarfélags Akraness. Keppt verður í tveimur greinum, annars vegar hefðbundinni stungu og hins vegar frjálsri aðferð. Aldursflokkar verða tveir, 49 ára og yngri og 50+. Veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í hvorum flokki.

Kl. 12:00 
Opnun ljósmyndasýningar Hildar Björnsdóttur, Farið á fjörur, í Akranesvita. Travel Tunes Iceland spila við opnunina.

Kl. 13:00-14:00
Dorgveiðikeppni á Sementsbryggjunni.

Kl. 13:30 
Björgunarfélag Akraness vígir nýtt björgunarskip á hafnarsvæðinu, allir velkomnir.

Kl. 13:30-16:30  
Kaffisala í Jónsbúð við Akursbraut á vegum Slysavarnardeildarinnar Lífar. Allir hjartanlega velkomnir.

Kl.14:00-16:00  
Fjölskylduskemmtun á hafnarsvæðinu í samstarfi við Akraneskaupstað, Verkalýðsfélag Akraness, HB Granda, Faxaflóahafnir, Runólf Hallfreðsson ehf., Björgunarfélag Akraness og Fiskmarkað Íslands. Á boðstólnum verða m.a.: Róðrarkeppni Gamla Kaupfélagsins, bátasmíði í boði Húsasmiðjunnar, kassaklifur, furðufiskar og ýmislegt fleira. Von er á þyrlu Landhelgisgæslunnar í heimsókn ef aðstæður leyfa og félagar í Sjósportfélaginu Sigurfara verða sýnilegir á svæðinu.Þá verður ýmislegt sjávartengt til sölu, bæði matur til að njóta á staðnum sem og aðrar vörur.

Published in Fréttir

Það er skuggalegt að skoða þróun á launum sjómanna frá árinu 2015 og svo launin 2017 en það er óhætt að segja að þau séu nánast í frjálsu falli vegna lækkunar á fiskverði í íslenskum krónum. Þessu til viðbótar er rétt að vekja athygli á því að sumar fiskitegundir hafa einnig lækkað í erlendri mynt og nægir að nefna að karfaverð hefur lækkað um 45% sem helst má rekja til lokunar á Rússlandsmarkaði.

Formaður hefur skoðað hvaða áhrif þessi gengisstyrking og lækkun á fiskverði hefur haft á afkomu skipverja á Helgu Maríu AK og Ásbirni RE miðað við aflamagn þessara skipa árið 2016, en tekjufallið er gríðarlegt og nemur 5 til 6 milljónum á ársgrundvelli miðað við 192 róðrardaga eða sem nemur um 50%.

Þetta sést vel á samanburði á fiskverði í maí 2015 og maí 2017 miðað við aflamagn ársins 2016, en þá kemur í ljós að aflaverðmætið t.d. hjá Helgu Maríu lækkar úr 1,3 milljörðum í 855 milljónir eða um rúmlega 425 milljónir, en hér er lækkun á aflaverðmæti sem nemur um 50%.

Það er ljóst að margar hliðar eru á gríðarlegri gengisstyrkingu krónunnar og lækkunar á fiskverði og ein hliðin er sú að laun sjómanna hafa lækkað um sem nemur allt að 50% á einungis tveimur árum. Það má ekki heldur gleyma því að þetta tekjufall sjómanna hefur síðan áhrif á skatttekjur ríkis og sveitarfélaga sem og á verslun og þjónustu í þeim sveitafélögum þar sem sjávarútvegur er ríkur þáttur í atvinnusköpun.

Það er ljóst að sjómannadagurinn verður haldinn í skugga gríðarlegs tekjufalls íslenskra sjómanna vegna mikillar styrkingar á krónunni og lækkunar á afurðaverði og núna er sú staða að koma upp að erfiðlega getur gengið að manna íslenska skipaflotann ef ekki fer að verða breyting á gengi krónunnar og hækkun á fiskverði.

Það er morgunljóst að við sem þjóð verðum að passa okkur á að skapa ekki þannig forsendur að okkar helstu útflutningsgreinum verði stefnt í mikið rekstraróöryggi því ef það gerist þá munum við sem þjóð öll tapa.

Nú verða stjórnvöld að bregðast við og það geta þau gert m.a. með því að koma vitinu fyrir fulltrúa Seðlabankans með því að lækka vexti og síðan verða stjórnvöld að afnema verðtryggingu á fjárskuldbindingar heimilanna. Íslensk heimili vita hvað gerist ef gengið fellur en þá er ljóst að íslensk heimili munu verða fyrir miklum búsifjum þar sem verðtryggðar skuldir heimilanna geta stökkbreyst á skömmum tíma.

Á þessu sést að hér er við gríðarlegan vanda að etja en það er morgunljóst að ekki er hægt að ógna okkar helstu útflutningsgreinum með linnulausri styrkingu krónunnar því á endanum mun það koma illa í bakið á okkur almenningi og þá sögu þekkjum við vel.

Published in Fréttir

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá skrifaði Verkalýðsfélag Akraness undir sérkjarasamning við Samtök atvinnulífsins vegna starfsmanna í fiskimjölsverksmiðju HB Granda á Akranesi þann 31. maí sl. Kynningu og kosningu um sérkjarasamninginn er nú lokið og er skemmst frá því að segja að samningurinn var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum. Samninginn má lesa hér..

Það verður því ekki annað séð en að starfsmenn séu bara nokkuð sáttir með samninginn en hann gefur starfsmönnum rétt tæp 11% launahækkun sem gildir afturvirkt frá 1. mars síðastliðnum, en laun starfsmanna eru að hækka um rétt tæpar 50.000 krónur á mánuði.  

Published in Fréttir

Það er óhætt að segja að nóg hafi verið að gera í kjarasamningsgerð hjá Verkalýðsfélagi Akraness á liðnum vikum, en eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá gekk félagið frá nýjum kjarasamningi við Elkem Ísland þann 12. maí síðastliðinn og í gær skrifaði félagið undir nýjan sérkjarasamning milli Verkalýðsfélags Akraness og Samtaka atvinnulífsins vegna starfsmanna í fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Akranesi.

Þessi samningur gildir afturvirkt frá 1. mars 2017 til 15. maí 2019, en samningurinn er að gefa starfsmönnum við undirritun rétt rúm 10% launahækkun með öllu og eru flestir starfsmenn að hækka í launum sem nemur rúmum 43 þúsund krónum á mánuði. Allir starfsmenn fiskimjölsverksmiðjunnar eru með svokallað SF-námskeið og viðbótarnámskeið sem þýðir að starfsmaður með 7 ára starfsreynslu verður með 365.141 krónu á mánuði í grunnlaun og ofaná þau laun leggjast síðan vaktaálög sem voru hækkuð úr 30% í 36%. Einnig fá starfsmenn svokallaðan vaktabónus þannig að heildarlaun starfsmanns með SF-námskeið verða rétt tæp 500 þúsund fyrir 173 tíma á mánuði.

Á morgun mun formaður kynna nýjan kjarasamning fyrir starfsmönnum og að aflokinni kynningu verður kosið um samninginn.

Published in Fréttir

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni var undirritaður nýr kjarasamningur fyrir starsfmenn Elkem á Grundartanga þann 12. maí síðastliðinn og rétt í þessu lauk talningu á atkvæðum úr kosningu um samninginn. Var samningurinn samþykktur með miklum meirihluta en tæplega 71% sem greiddu atkvæði sögðu já og 29% sögðu nei.

Á þessu sést að mikil ánægja var með nýgerðan kjarasamning enda voru fjölmörg atriði í samningnum til mikilla hagsbóta fyrir starfsmenn enda er hann að skila til dæmis ofngæslumönnum yfir 9% launahækkun í upphafi ásamt mikilli hækkun á orlofs- og desemberuppbótum og einnig eru launahækkanir á samningstímanum vel tryggðar.  

Published in Fréttir

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni var undirritaður nýr kjarasamningur fyrir starfsmenn Elkem Ísland á föstudaginn en formaður félagsins var í gær að kynna samninginn fyrir starfsmönnum Elkem. Þessi kjarasamningur er að mati formanns félagsins mjög góður enda er hann í anda þess samnings sem gerður var fyrir starfsmenn Norðuráls. Ofngæslumenn eru til dæmis að hækka um 9% í heildarlaunum á fyrsta ári samningsins. Heildarlaun ofngæslumanns með 10 ára starfsreynslu voru fyrir samninginn fyrir utan desember- og orlofsuppbætur 517.609 kr. en fara upp í 564.988 kr. sem er tæplega 50.000 kr. hækkun á mánaðarlaunum eða eins og áður sagði 9,15%

Í samningnum var bónuskerfið lagfært en það getur gefið að hámarki 10,5% Samningsaðilar eru sammála um að það eigi að skila starfsmönnum um eða yfir 80% af hámarkinu sem eru 8,4%. Gamla bónuskerfið var ekki að virka sem skyldi en sá bónus gaf 5,6% að meðaltali á síðasta samningstíma. Orlofs- og desemberuppbætur hækka umtalsvert eða úr rúmum 181.000 kr. hvor fyrir sig eða samtals 362.000 kr. í 202.000 kr. eða samtals 404.000 kr. sem þýðir að hækkun orlofs- og desemberuppbóta nemur 11,3% á fyrsta ári. En orlofs- og desemberuppbætur hjá stóriðjunum á Grundartanga eru langtum hærri en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði.

Í þessum samningi náðist líka í gegn svokallaður Elkem skóli sem er starfstengt nám sem er tvískipt, annars vegar grunnnám og hinsvegar framhaldsnám og spannar hvort námið fyrir sig 3 annir. Að afloknum skólanum munu starfsmenn fá 5% hækkun fyrir hvort námið fyrir sig eða samtals 10% sem þýðir að þegar starfsmenn hafa lokið bæði grunn- og framhaldsnámi þá mun það skila þeim uppundir 60.000 kr. launahækkun.

Samningurinn gildir afturvirkt frá 1. febrúar 2017 en hann gildir til 31. mars 2019 og munu hækkanir í samningnum verða með sambærilegum hætti og gerist hjá Norðuráli á Grundartanga fyrir árið 2018. Ástæða þess að samningurinn gildir bara til 31. mars 2019 er sú að þá rennur raforkusamningur Elkem við Landsvirkjun út og eins og staðan er núna ríkir töluverð óvissa varðandi raforkumál fyrirtækisins þar sem það hefur ekki enn náð samningum við Landsvirkjun. Formaður félagsins skal fúslega viðurkenna að hann hefur verulegar áhyggjur af þeim málum enda hefur okkar atvinnusvæði orðið fyrir nægum áföllum að undanförnu og nægir að nefna í því samhengi uppsagnir uppundir 100 starfsmanna í landvinnslu HB Granda.

En eins og áður sagði er þetta mjög góður samningur en rétt er að vekja sérstaka athygli á því að samið var á hinum almenna vinnumarkaði um aukið framlag í lífeyrissjóði sem verður komið upp í 3,5% í júlí 2018. Þetta aukaframlag munu starfsmenn Elkem mega nota í sína eigin séreign allt þar til lögum um lífeyrissjóði verður breytt og ef þeim verður breytt. Semsagt, þeir mega ráða hvort þeir setji þetta í samtryggingu síns lífeyrissjóðs eða í séreignina sem þeir eru nú þegar með hver fyrir sig.

Formaður kynnti þennan samning í gær á tveimur fjölmennum fundum og eru starfsmenn nú að kjósa um samninginn. Kosningu lýkur á næsta föstudag kl. 13:30 og mun niðurstaðan liggja fyrir um kl. 14.

Published in Fréttir

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness var haldinn í gær. Það er skemmst frá því að segja að atburðir dagsins í gær settu mark sitt á fundinn en öllum starfsmönnum í landvinnslu HB Granda, 86 manns, var sagt upp störfum.

Þrátt fyrir að þetta mál hafi mikið verið rætt á aðalfundinum þá fór formaður að venju yfir skýrslu stjórnar. Kom fram í hans máli að félagið stendur gríðarlega vel, ekki bara fjárhagslega heldur einnig félagslega. Rekstrarafgangur af öllum sjóðum félagsins nam 109 milljónum króna en það hefur verið stefna stjórnar að láta félagsmenn ætíð njóta góðrar afkomu félagsins með einum eða öðrum hætti, til dæmis í formi hækkunar á styrkjum og öðru sem tengist réttindum félagsmanna í félaginu.

Eins og áður sagði var afkoman góð og því var fæðingarstyrkur félagsmanna hækkaður úr 85.000 kr. í 100.000 kr. og ef báðir foreldrarnir eru í félaginu nemur heildarupphæðin 200.000 kr. Einnig var gleraugnastyrkurinn hækkaður úr 40.000 kr. í 45.000 kr. 

Það kom einnig fram að réttindabarátta félagsins og vinna við varðveislu réttinda félagsmanna hefur verið gríðarlega mikil á liðnum misserum. Félagið rekur nú þrjú mál fyrir dómstólum og hefur frá því að núverandi stjórn tók við árið 2003 innheimt yfir 400 milljónir vegna hinna ýmsu kjarasamningsbrota.

Að sjálfsögðu voru málefni líðandi stundar ofarlega í huga fundarmanna eins og áður kom fram og var sú ákvörðun forsvarsmanna HB Granda að hætta hér landvinnslu eftir yfir 100 ára vinnslu á sjávarafurðum fordæmd harðlega. Fram kom í máli formanns að árið 2002 hafi 170.000 tonnum verið landað á Akranesi, 350 manns hafi þá starfað hjá Haraldi Böðvarssyni og fyrirtækið verið langstærsti launagreiðandi á Norðvesturlandi með greiðslur sem námu 2 milljörðum króna. Núna væri öll vinnslan að fara héðan og var það mat fundarmanna að það væri ekki hægt að láta slíkt átölulaust. Því var sett fram áskorun til félagsins um að fordæma þessi vinnubrögð harðlega enda liggur fyrir að þær forsendur fyrir þessu sem HB Granda menn gefa sér virðast ekki standast eina einustu skoðun.

Það kom fram í máli formanns að lega Akraness varðandi fiskimið væri mjög hagstæð þar sem veiðar á uppsjávarafla færu að stórum hluta fram við suðurströndina en þrátt fyrir stutta siglingu til Akraneshafnar tækju forsvarsmenn HB Granda ákvörðun um að sigla hringinn í kringum landið með þær afurðir. Vakti hann einnig athygli á því að eftir að HB Granda var gert skylt að fara með beinabræðsluna úr Norðurgarði í Reykjavík þá hefur fyrirtækið þurft að keyra þúsundum tonna af beinum til bræðslu á Akranesi og nam þessi flutningur um 15.000 tonnum í fyrra. Það er óhætt að segja að frá því sameining HB og Granda átti sér stað árið 2004 hafa allar hagræðingaraðgerðir fyrirtækisins bitnað á okkur Akurnesingum. Hér að neðan má sjá ályktun fundarins varðandi ákvörðun HB Granda.

Ályktun aðalfundar Verkalýðsfélags Akraness vegna ákvörðunar HB Granda

"Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness, haldinn þann 11. maí 2017, fordæmir ákvörðun HB Granda um að ætla sér að hætta landvinnslu á Akranesi og færa störfin til Reykjavíkur. Það er mat fundarins að forsvarsmenn fyrirtækisins hafi ekki sýnt fram á þá hagræðingu sem slíkar aðgerðir eiga að leiða af sér. Aðalfundurinn skorar á Alþingi Íslendinga að byggðafesta aflaheimildir og standa vörð um dreifða byggð í landinu og trygga atvinnu eins og kveðið er á um í 1. grein laga um stjórn fiskveiða. Fundurinn telur það nöturlegt þegar aðilar sem hafa tímabundinn umráðarétt yfir auðlindum hafsins geta tekið ákvörðun um að svipta fólk lífsviðurværi sínu og skilja samfélögin eftir í sárum. Því ítrekar fundurinn áskorun til Alþingis um að tekið verði á þessari meinsemd við stjórnun fiskveiða."  

Published in Fréttir

Rétt í þessu var undirritaður nýr kjarasamningur við Elkem Ísland á Grundartanga. Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að samningurinn sé mjög ásættanlegur enda náðust helstu megináherslur kröfugerðarinnar fram. Samningurinn mun verða afturvirkur frá 1. febrúar 2017 og eru ýmis mikilvæg réttindamál inni í þessum nýja samningi. Meðal annars náðist áfangi sem barist hefur verið fyrir í mörg ár sem er svokallaður stóriðjuskóli en þessi skóli mun heita Elkem skólinn. Námið er tvískipt og að loknum hvorum hluta fyrir sig fá starfsmenn 5% launahækkun og er því 2 x 5% launahækkun í boði í gegnum Elkem skólann. 

Einnig var bónuskerfinu breytt umtalsvert sem mun gefa starfsmönnum hærri bónus heldur en í þeim samningi sem nú var að renna út og einnig er ágætis hækkun á grunnlaunum sem hefur margfeldisáhrif á aðra kjaraliði. Orlofs- og desemberuppbætur munu hækka um rúm 11% og verða hvor fyrir sig 202.000 kr. eða samtals 404.000 kr á ári.

Samningurinn verður kynntur ítarlega fyrir starfsmönnum á þriðjudaginn, 16. maí, þar sem formaður mun fara yfir þau atriði sem náðust. Eins og áður sagði náðust helstu atriðin þó alltaf sé það þannig í kjarasamningsgerð að menn hefðu viljað fá enn meira. En heilt yfir er þessi kjarasamningur mjög góður að mati formanns.   

Published in Fréttir

Eins og flestir vita þá tilkynntu forsvarsmenn HB Granda í lok mars að þeir hefðu áform um að leggja niður landvinnsluna á Akranesi og segja allt að 100 manns upp störfum. Verkalýðsfélag Akraness og forsvarsmenn Akraneskaupstaðar mótmæltu þessum áformum harðlega og óskuðu eftir því við fyrirtækið að það myndi fresta þessum áformum og hefja viðræður við Akraneskaupstað. Grundvöllur þeirra viðræðna var að kanna hvað það væri sem til þyrfti svo að fyrirtækið myndi hætta við þessi áform sín og með því bjarga þeim störfum sem hér væru undir.

Viðræður á milli Akraneskaupstaðar og forsvarsmanna HB Granda hafa staðið yfir á undanförnum vikum en rétt í þessu hafði forstjóri HB Granda, Vilhjálmur Vilhjálmsson, samband við formann félagsins og óskaði eftir fundi kl. 14:15 og í kjölfarið verður fundað með starfsmönnum kl. 15. Formaður veit ekki hvert tilefni fundarins er en það er ljóst að það tengist þessum áformum og því er það einlæg von Verkalýðsfélags Akraness að tíðindin verði jákvæð þannig að hægt verði að bjarga þeim mikilvægu störfum sem hér eru undir. Eins og áður sagði eru þetta uppundir 100 manns sem starfa í landvinnslunni en með afleiddum störfum eru uppundir 150 störf sem um ræðir.

Eins og áður sagði er ekkert annað í stöðunni en að vona það besta enda er það einlægur vilji Verkalýðsfélags Akraness að við Akurnesingar verðum áfram hluti af þessu öfluga fyrirtæki sem HB Grandi er og skiptir það okkur Akurnesinga gríðarlega miklu máli.

Published in Fréttir

Fréttir

Nýjar fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image