• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
21
Dec

Þjóðarsátt um lækkun verðbólgu og vaxta

Eins og fram hefur komið þá telur Verkalýðsfélag Akraness ásamt stórum hluta verkalýðshreyfingarinnar afar mikilvægt að fara í komandi kjaraviðræður með öðrum hætti heldur en stundum hefur verið gert. Ástæðan er einföld, nú ríkir 8% verðbólga og stýrivextir eru í hæstu hæðum eða nánar tiltekið 9,25%. Þetta hefur gert það að verkum að á liðnum misserum hafa allir kostnaðarliðir í útgjöldum hemilanna stökkbreyst. Útgjöld heimilanna hafa aukist um tugi ef ekki hundruð þúsunda vegna hækkana á verðlagi og síðast en ekki síst vegna hækkunar á vaxtabyrði.

Á þeirri forsendu hefur verkalýðshreyfingin í heild sinni verið að vinna að því að fara sameinuð í viðræður við Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld með það að markmiði að ganga frá hófstilltum kjarasamningum til langs tíma á grundvelli sameiginlegs kostnaðarmats sem rúmist innan þess sem hinir helstu greiningaraðilar tala um á hverjum tíma fyrir sig. Því miður er nú komið í ljós að ekki er full samstaða um að fara þessa leið en þó ber að geta þess að yfir 90% aðildarfélaga ASÍ eru sammála um að fara þessa leið, leið sem lýtur að því að vinna bug á verðbólgu og stuðla hér að hratt lækkandi vöxtum.

Það má eiginlega segja að þetta sé hálfgerð þjóðarsátt sem byggist á því að allir muni þurfa að leggja sitt af mörkum til að hún geti orðið að veruleika. Nægir þar að nefna aðkomu stjórnvalda við að endurreisa tilfærslukerfin eða svokallaðar barnabætur, vaxtabætur og húsnæðisbætur sem og að leggja drög að nýju húsnæðislánakerfi þar sem íslenskum neytendum stæði til boða sambærileg húsnæðiskjör og gerast í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við svo einhver atriði séu nefnd.

Nú er staðan þannig að þau félög sem eru tilbúin til að halda áfram á þessari leið eru Landssamband verslunarmanna, Starfsgreinasamband Íslands og Efling stéttarfélag. Ekki er ólíklegt að einhver hluti iðnaðarmannafélaganna muni einnig koma með. Til að ná árangri liggur fyrir að launaliður kjarasamningsins þarf að vera innan kostnaðarmats og launahækkanir og aðkoma stjórnvalda og sveitarfélaga þarf að vera í samspili í 100% tilfella.

Til að þetta geti gengið upp þurfa ríki, sveitarfélög, verslun og þjónusta og í raun og veru allir að taka þátt og mikilvægt að kostnaðarhækkunum verði ekki velt af fullum þunga út í verðlagið og reynt verði að halda verðlagshækkunum og gjaldskrárhækkunum í lágmarki, sérstaklega sem lýtur að barnafjölskyldum. Það er ljóst að þessi vinna mun fara á fulla ferð enda ekki eftir neinu að bíða enda mikilvægt að nýr kjarasamningur taki við af eldri kjarasamningi og ávinningurinn af þessari leið skili sér hratt og vel enda er markmið og stefna samningsins ef af verður að ná verðbólgu hratt niður ásamt vöxtum eins og áður hefur komið fram. En eitt er víst að þetta verður ekki gert án þess að skýr forsenduákvæði til varnar íslensku launafólki og heimilum verði til staðar í slíkum samningi. Forsenduákvæði sem tryggja launafólk gegn því ef aðrir aðilar ætla ekki að taka þátt í þessari vegferð og árangur varðandi lækkun verðbólgu og vaxta skilar sér ekki eins og forsendur samningsins myndu segja til um.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image