• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Oct

Hvalur hf. dæmdur í Landsrétti til að leiðrétta laun starfsmanna sem störfuðu á hvalvertíðum

Verkalýðsfélag Akraness hefur frá árinu 2015 staðið í baráttu fyrir kjörum starfsmanna á hvalvertíðum hjá Hval hf.

Fyrirtækið neitaði að greiða starfsmönnum sínum svokallaða „sérstaka greiðslu“ þótt skýrlega hefði verið kveðið á um greiðsluna í ráðningarsamningi.

Auk þess greiddi Hvalur hf. ekki neinar greiðslur fyrir þá lögbundnu vikulegu frídaga sem starfsmenn misstu vegna mikils og stöðugs vinnuálags.

Afleiðingin var sú að starfsmenn urðu af töluverðum fjárhæðum á hverri hvalvertíð.

Verkalýðsfélagið stóð að dómsmáli gegn Hval hf. vegna þessa og með dómi 14. júní 2018 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að Hval hf. bæri að greiða starfsmönnum hina svokölluðu „sérstöku greiðslu“ og bætur vegna missis frídaga.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu Hæstaréttar neitaði Hvalur hf. enn að greiða starfsmönnum og bar því við að kröfurnar væru fallnar niður fyrir tómlæti.

Verkalýðsfélag Akraness neyddist því til þess að höfða annað mál gegn Hval hf. til þess að fá fyrirtækið til þess að greiða starfsmönnum þau réttindi sem Hæstiréttur var þegar búinn að staðfesta að fyrirtækið hefði hlunnfarið þá um með ólögmætum hætti.

Héraðsdómur Vesturlands sýknaði Hval hf. af öllum kröfum starfsmanna en ágreiningnum var áfrýjað til Landsréttar.

Með dómi Landsréttar í dag var tekið undir kröfur starfsmanna að mestu leyti.

Hval hf. er gert að greiða öllum starfsmönnum „sérstaka greiðslu“ fyrir hverja einustu vakt sem unnin var á hvalvertíð 2015.  En var hins vegar sýknað að leiðrétta fyrir vertíðarnar 2013 og 2014

Þá ber í sumum tilvikum einnig að greiða „sérstaka greiðslu“ fyrir vaktir á hvalvertíð 2014.

Auk þess ber Hval hf. að rétta hlut starfsmanna sem ekki fengu lögboðinn vikulegan frídag á hvalvertíðum 2013, 2014 og 2015.

Hval hf. er að lokum gert að greiða starfsmönnum dráttarvexti af skuldum sínum við starfsmenn frá 21. júlí 2017 og málskostnað fyrir Landsrétti og nemur sá málskostnaður sem Hvalur þarf að greiða VLFA rétt tæpum 3,5 milljónum.

Það má áætla að þessi dómur muni skila þeim 100 starfsmönnum sem munu heyra undir dóminn rúmum 100 milljónum.

Þótt þetta sé  sigur að hafa tekist að snúa við sýknu dómi Héraðsdóms Vesturlands þá er það umhugsunar efni að atvinnurekendur skuli komast upp með launaþjófnað að hluta á grundvelli svokallaðs tómlætis!

Dómarnir eru birtir á vef Landsréttar þann 23. október 2020

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image