• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Mar

Fjórtánda samningafundi hjá ríkissáttasemjara lokið

Rétt i þessu lauk fjórtánda samningafundi Verkalýðsfélags Akraness, Verkalýðsfélags Grindavíkur, VR, LÍV og Eflingar-stéttarfélags við Samtök atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara.

Það er óhætt að segja að afar lítið hafi komið út úr þessum samningafundi annað en það að áðurnefnd stéttarfélög hafa ítrekað óskað eftir að SA leggi fram tölu í launaliðnum til að hægt sé að meta hvort viðræðugrundvöllur sé til áframhaldandi samningaviðræðna.

En Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað vikið sér undan því að leggja fram tölur í launaliðnum og núna telja forsvarsmenn SA að sú óvissa sem uppi er hjá flugfélaginu WOW air geri það að verkum að þeir treysta sér ekki til að leggja neitt fram í þeim efnum fyrr en þeirri óvissu hafi verið eytt.

Það er rétt að geta þess að áðurnefnd stéttarfélög gera alls ekki lítið úr þeirri óvissu sem uppi er hvað varðar WOW air, enda liggur fyrir að óvissa er um störf þúsunda starfsmanna fyrirtækisins, sem eru margir í einhverjum af þeim stéttarfélögum sem nú eru í viðræðum við Samtök atvinnulífsins.

Það er einnig rétt að geta þess að forsvarsmenn stéttarfélagana hafa áhyggjur af því að ef WOW air lifir þetta ekki af þá muni verðbólgan geta farið af stað og félögin spyrja hvernig á að tryggja að verðtryggðar skuldir heimilanna aukist ekki um t.d. 34 milljarða ef verðbólgan eykst t.d. um 2% vegna falls WOW air?  Eða á bara að senda þannig reikning enn og aftur á heimilin sem bera ekki nokkra ábyrgð á rekstri viðkomandi flugfélags? 

Hins vegar liggur fyrir að það þarf að ganga frá kjarasamningi og það verkefni fer ekkert frá samningsaðilum, en erfið staða einstakra fyrirtækja á ekkert með að raska þeirri staðreynd. En í ljósi óvissunnar sem nú er uppi hvað WOW air varðar var ákveðið að fresta viðræðum til 10 i fyrramálið, en stéttarfélögin ítrekuðu mikilvægi þess að SA myndi leggja fram hugmyndir að launaliðnum á fundinum á morgun.

Einnig ítrekuðu félögin enn og aftur á fundinum í morgun að stéttarfélögin hafna með öllu þeim vinnutímabreytingum sem uppi hafa verið enda klárt mál að þær muni leiða til kjaraskerðingar hjá afar stórum hópi okkar félagsmanna.

23
Mar

Málflutningur fyrir Hæstarétti í máli félagsins gegn Skagnum var flutt í gær

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá stefndi Verkalýðsfélag Akraness fyrirtækinu Skaganum vegna grófra kjarasamningsbrota gagnvart einum af okkar félagsmönnum.

Málið vannst fyrir Landsrétti í október á síðasta ári.  En það er skemmst frá því að segja að Landsréttur var algerlega sammála Verkalýðsfélagi Akranes og lögmanni félagsins, enda var Skaginn dæmdur í dag til að greiða starfsmanninum rétt rúma eina milljón króna ásamt dráttarvöxtum frá 19. febrúar 2017 í vangöldin laun vegna hvíldartíma og vikulegs frídags. Skaginn var einnig dæmdur til að greiða eina milljón í málskostnað til Verkalýðsfélag Akraness.  Sjá dóm Landsréttar

Verkalýðsfélag Akraness átti nú von á því að forsvarsmenn Skagans myndu nú unna dómi Landsréttar, en sú var nú hinsvegar ekki raunin enda óskaði Skaginn eftir áfrýjunar leyfi til Hæstaréttar á grundvelli þess að umræddur starfsmaður hafi verið trúnaðarmaður og hafi á þeirri forsendu átt að hafa "meiri" vitneskju um að verið væri brjóta á réttindum sínum en almennur starfsmaður.

Það kom lögmanni og formanni Verkalýðsfélags Akraness á óvart að Hæstiréttur skyldi samþykkja áfrýjunar leyfi í þessu máli á grundvelli þess að um fordæmisgefandi mál væri að ræða þar sem um trúnaðarmann væri að ræða.

En málflutningur var í Hæstarétti í gær og er það mat formanns VLFA sem fór í Hæstarétt í gær til að hlusta á málflutning lögmannanna að Verkalýðsfélag Akraness hlýtur að vinna þetta mál fyrir Hæstarétti.  Enda myndi annað leiða það af sér að núverandi trúnaðarmannakerfi á íslenskum vinnumarkaði væri nánast lagt í rúst ef trúnaðarmenn þurfi að búa við það að tapa málum þegar verið væri verið að brjóta á réttindum þeirra fyrir það eitt að þeir hafi verið trúnaðarmenn.

Óbilgirni forsvarsmanns Skagans er löngu hætt að koma formanni Verkalýðsfélags Akraness á óvart, enda hefur eigandi Skagans ítrekað reynt að koma sér hjá því að greiða kjör eins og kjarasamningar kveða á um, en í því samhengi er VLFA nú þegar búið að fá Skagann dæmdan til að greiða kjarasamningsbundinn uppsagnarfrest til starfsmanns sem fyrirtækið hafði hafnað að greiða.  En einnig er rétt að geta þess að Skaginn var bæði dæmdur í Héraðsdómi og Landsrétti fyrir að hafa verið með ólöglega ráðningarsamninga, enda brutu þeir í bága við lög um stéttarfélög og vinnudeilur.

Formaður telur að dómsuppkvaðning í þessu máli liggi fyrir í næstu eða þarnæstu viku.

23
Mar

Þrettándi fundurinn haldinn hjá ríkissáttasemjara

Á síðasta fimmtudag var haldinn þrettándi samningafundur Verkalýðsfélags Akraness, VR, Eflingar-stéttarfélags og Verkalýðsfélags Grindavíkur við Samtök atvinnulífsins.  En þessi fundur var haldinn í skugga þess að einungis örfáir klukkustundir voru þar til verkfall starfsmanna á hótelum og hópferðabílstjórum myndi skella á.

Rétt er að geta þess að fyrir þennan samningafund hjá ríkissáttasemjara voru fleiri félög búin að óska eftir að fá að koma inní okkar hóp, en það voru Framsýn stéttarfélag og Landssamband verslunarmanna og að sjálfsögðu var það samþykkt af félögunum fjórum .

Þessi samningafundur hjá sáttasemjara stóð yfir í níu klukkustundir og má segja að þetta hafi verið eiginlega fyrsta alvöru samtalið sem þessi stéttarfélög hafa átt við Samtök atvinnulífsins í þessari kjaradeilu.  Að því leytinu var þetta jákvæður fundur þótt en sé morgunljóst að mikið beri á milli deiluaðila.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hafa Samtök atvinnulífsins viljað taka upp mjög margar róttækar vinnustundabreytingar á íslenskum vinnumarkaði og munu sumar þessar hugmynda klárlega leiða til kjaraskerðingar hjá hluta okkar félagsmanna ef þessar hugmyndir yrðu að veruleika.

En þetta eru t.d. hugmyndir um að lengja dagvinnutímabilið um 2 tíma á dag, taka upp svokallað eftirvinnuálag og lengja í uppgjörstímbili á yfirvinnu.  Öllum þessum hugmyndum hafa áðurnefnd stéttarfélög hafnað algerlega, enda um kjaraskerðingu og réttindaeftirgjöf um að ræða.

Það er ljóst að mikið ber á milli aðila ennþá en mjög mikilvægt að halda samtalinu áfram, enda einungis nokkrir dagar þar til verkfallshrina númer 2 byrjar, en þá skella á tveggja daga verkföll hjá sömu hópum á höfuðborgarsvæðinu og nefndir voru hér að ofan .

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá setti ríkissáttasemjari algert fjölmiðlabann um  hvað er verið að ræða um á fundum hjá sáttasemjara og samkvæmt lögum verða deiluaðilar að virða þá ákvörðun sáttasemjara í hvívetna.

Næsti fundur hjá ríkissáttasemjara verður á mánudaginn kemur en um helgina verða hinsvegar vinnufundir hjá stéttarfélögunum m.a. yfirferð á hinum ýmsu greinum í kjarasamningum sem þarf að breyta.

14
Mar

Afhverju eru ekki viðræður við Samtök atvinnulífsins?

Það er þyngra en tárum taki að ekkert hafi þokast í samkomulagsátt í kjaradeilu Verkalýðsfélags Akraness,  Verkalýðsfélagi Grindavíkur, VR og Eflingu stéttarfélags í ljósi þess að nú er að verða liðnir tveir og hálfur mánuður frá því að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði runnu út.

Það er einnig rétt að geta þess að það eru að verða liðnir fimm mánuðir frá því að þessi stéttarfélög afhentu Samtökum atvinnulífsins kröfugerð sína, kröfugerð sem byggist á því að auka verulega ráðstöfunartekjur þeirra sem eru á lægstu launatöxtunum í samfélaginu.

Þessi stéttarfélög hafa ætíð litið á að hægt væri að auka ráðstöfunartekjur tekjulægstu hópanna með þríhliða samkomulagi verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda og stjórnvalda, enda er allt samfélagið á Íslandi sammála að lagfæra verði kjör þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.

Það er eins og áður sagði þyngra en tárum taki í ljósi þess að einungis 8 dagar eru þar til verkföll hjá Eflingu og VR hefjast og ekkert samtal á sér stað. En margir spyrja sig af hverju er ekkert samtal að eiga sér stað við áðurnefnd stéttarfélög.

Í því ljósi er gríðarlega mikilvægt að almenningur og atvinnurekendur vítt og breitt um landið viti að ástæða þess að ekkert samtal er að eiga sér stað á milli þessara félaga er krafa Samtaka atvinnulífsins um róttækar breytingar sem SA vill gera á íslenskum vinnumarkaði. Breytingar sem lúta að t.d. að því að lengja dagvinnutímabilið um tvo tíma á dag og breyta deilitölu í vinnutímanum sem leiðir til lægri yfirvinnuprósentu og einnig að taka upp svokallað eftirvinnuálag.

Öllum þessum atriðum hafa áðurnefnd stéttarfélög ítrekað hafnað í viðræðum við Samtök atvinnulífsins og hafa meira segja látið bóka það hjá ríkissáttasemjara að þessum hugmyndum sé alfarið hafnað. Þrátt fyrir það byrja fulltrúar Samtaka atvinnulífsins alltaf á því að ræða þessar hugmyndir aftur og aftur þrátt fyrir skýlausa höfnun félaganna á þessum hugmyndum.

Eftir að stéttarfélögin fjögur höfnuðu þessum hugmyndum enn og aftur ákváðu fulltrúar Samtaka atvinnulífsins að hætta að ræða við áðurnefnd stéttarfélög og hafa því einhent sér í að ræða við Starfsgreinasamband Íslands, Iðnaðarmenn og Landssamband verslunarmanna og hafa fundað nánast alla daga hjá ríkissáttasemjara í rúmar tvær vikur.

Eftir upplýsingum sem Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Grindarvíkur, VR og Eflingar hafa aflað sér þá eru þessar vinnustundarbreytingar að einhverju leyti til umræðu hjá þeim félögum sem eru að ræða við Samtök atvinnulífsins í húsakynnum ríkissáttasemjara.

Eins og áður sagði þá kemur það ekki til greina að fara í viðræður um þessar róttæku breytingar á vinnufyrirkomulagi á íslenskum vinnumarkaði í þessum kjarasamningum, enda kemur alls ekki til greina að íslenskt verkafólk kaupi að hluta sínar launahækkanir sjálft í gegnum þessar breytingar t.d. með tveggja tíma lengingu á dagvinnutímabilinu sem myndi leiða til þess að vaktaálagstímar vaktavinnufólks fækki með tilheyrandi tekjuskerðingu. Þetta er galin hugmynd sem þessi félög munu aldrei taka þátt í.

Enn og aftur er mikilvægt að almenningur, félagsmenn okkar og líka atvinnurekendur átti sig á því að ástæða þess að viðræður eru ekki að eiga sér stað á milli okkar er þessi botnlausa krafa Samtakanna um að við föllumst á þessar breytingar.

Ég hef tekið Þátt í kjarasamningsgerð í 14 ár og hef aldrei áður lent í því að atvinnurekendur komi aftur og aftur með kröfur að borðinu sem hefur verið hafnað af hálfu verkalýðshreyfingarinnar, en það hafa fulltrúar SA ítrekað gert í þessum viðræðum.

Það er morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Grindavíkur, VR og Efling stéttarfélag eru svo sannarlega tilbúið að setjast að samningsborði og leysa þessa deilu enda fullur samningsvilji til staðar. En það verður alls ekki gert með afar kostum Samtaka atvinnulífsins um róttækar breytingar á vinnumarkaðnum sem byggjast á því að launafólk kaupi sínar launahækkanir dýru verði!

14
Mar

Formaður fundar í samstarfsnefnd milli Sambands íslenskra sveitafélaga og VLFA

Verkalýðsfélag Akraness vísaði ágreiningi um túlkun á réttindarávinnslu til greiðslu á orlofs-og desemberuppbótum hjá tímakaupsfólki til samstarfsnefndar Sambands íslenskra sveitafélaga og Verkalýðsfélags Akraness. Einnig var VLFA búið að vísa ágreiningi til samstarfsnefndarinnar um að tímakaupsfólk hjá sveitafélögum ætti ekki rétt á eingreiðslu vegna þess að síðasti kjarasamningur var látinn gilda þremur mánuðum lengur. En þessi eingreiðsla kom til útborgunar 1. febrúar og fengu allir starfsmenn hana nema tímakaupsfólk.

Þetta telur Verkalýðsfélag Akraness fráleidda túlkun hjá Sambandi íslenskra sveitafélaga enda ljóst að bæði fólk í föstu starfshlutfalli og tímakaupfólk sem varð fyrir fjárhagslegum skaða með því að lengja í samningum um þrjá mánuði.

Í gær átti formaður fund í samstarfsnefnd Sambands íslenskra sveitafélaga og Verkalýðsfélags Akraness en það er vettvangur þar sem svona ágreiningsmál eru tekin fyrir og var niðurstaða samstarfsnefndar að aðilar voru sammála um að fjalla um viðeigandi ákvæði í kjarasamningi í komandi kjarasamningum þar sem fundin verði lausn á þessu ágreiningsefni er lýtur að ávinnslu tímakaupsfólks til greiðslu á orlofs-og desemberuppbótum. Voru aðilar sammála um að þar sem fólk vinnur eingöngu yfirvinnu vegna eðli starfsins þá þurfi að finna réttláta niðurstöðu við þá ávinnslu.

Varðandi eingreiðsluna þá óskaði Samband Íslenskra sveitafélaga að afgreiðslu á því máli yrði frestað í nokkra daga til að afla frekari gagna til upplýsinga. En formaður VLFA tjáði fulltrúum Sambands íslenskra sveitafélaga að þetta mál myndi enda fyrir dómstólum ef tímakaupsfólk yrði ekki afgreitt með sama hætti og fólk í föstu starfshlutfalli þegar kæmi að umræddri eingreiðslu.

08
Mar

Tólfti fundurinn hjá ríkissáttasemjara haldinn í gær

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá slitu Verkalýðsfélag Akraness, Grindavíkur, VR og Efling- stéttarfélag kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara 21. febrúar síðastliðinn.

Í gær var haldinn sáttafundur milli samningsaðila en sá fundur var boðaður á grundvelli laga sem byggist á því að ríkissáttasemjari ber að boða til fundar að lágmarki 14 daga fresti á milli deiluaðila til að taka stöðuna.

Á fundinum í gær kom svo sem ekkert nýtt fram annað en það að SA hefur átt í þéttum viðræðum við SGS en samflotsfélögin er ekki kunnugt um hvað sé verið að ræða nákvæmlega í þeim viðræðum.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni og á opinberum vettvangi þá hafna félögin fjögur alfarið öllum hugmyndum er lúta að vinnutímabreytingum eða svokölluðum yfirhellingum á milli yfirvinnu og dagvinnu.

Það er ljóst að viðræðurnar eru í algjörum hnút en megin krafa stéttarfélaganna er að hækka ráðstöfunartekjur lágtekju- og lægri millitekjuhópanna þannig að hægt sé að lifa af þeim frá mánuði til mánaðar en slíku er alls ekki til að dreifa í dag.

Einnig er það algjör krafa áðurnefndra félaga að samið verði í krónutöluhækkunum en alls ekki í prósentum enda eru prósentur aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og gerir ekkert annað en að auka á misskiptingu í íslensku samfélagi.

Ekki hefur verið boðað til annars fundar af hálfu ríkissáttasemjara.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image