• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Apr

Réttindi félagsmanna aukin í ljósi góðrar afkomu

Stjórnir allra sjóða Verkalýðsfélags Akraness funduðu í gær þar sem farið var yfir ársreikninga félagsins með endurskoðendum.

Það er skemmst frá því að segja að afkoma félagsins var mjög góð og skiluðu allir sjóðirnir töluverðum rekstrarafgangi þrátt fyrir þær hremmingar sem geysað hafa í kjölfar hruns bankanna. Og vill stjórn félagsins upplýsa félagsmenn um að Verkalýðsfélag Akraness tapaði ekki einni einustu krónu vegna þeirra hamfara sem riðu yfir bankakerfið enda var félagið hvorki aðili að peningamarkaðssjóðum bankanna né þátttakandi í hlutabréfakaupum. Það er stefna stjórnar félagsins að ávaxta fjármuni félagsins ávalt á sem besta og tryggasta hátt á venjubundum innlánsreikningum.

Þessi góða afkoma sjóðanna gerist einnig þrátt fyrir að búið sé að auka styrki úr sjúkrasjóði umtalsvert á liðnum árum og tók stjórn sjóðsins t.a.m. þá ákvörðun í gær að taka inn einn nýjan styrk til viðbótar og verður hann kynntur á aðalfundi félagsins þann 21. apríl nk.

Stjórn orlofssjóðs ákvað einnig að bjóða félagsmönnum upp á nýjung nú í sumar. Hægt verður að fá endurgreiðslu á kostnaði vegna gistingar á tjaldsvæðum og nemur sú endurgreiðsla 5.000 kr. gegn framvísun fullgildra kvittana.

Allt er þetta gert í ljósi þess að afkoma félagsins er mjög góð um þessar mundir þó vissulega séu blikur á lofti hvað varðar iðgjaldatekjur á þessu ári vegna samdráttar á vinnumarkaði.

Samtals nutu 1240 manns fjárhagslegs ávinnings af félagsaðild sinni með beinum hætti á liðnu ári sem er um 44% af öllum félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness. Á síðasta ári voru félagsmenn alls 2.839.

Það er stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að láta félagsmenn ávalt njóta góðs af góðri afkomu og auka réttindi okkar félagsmanna í takt við afkomu hvers árs fyrir sig.

Það er afar ánægjulegt að sjá þann árangur sem núverandi stjórn hefur náð frá því hún tók við 19. nóvember 2003 en á þessum tíma hefur stjórninni tekist að byggja upp sjóði félagsins en jafnframt auka réttindi félagsmanna gríðarlega. Stjórnin er hins vegar meðvituð um það að ávalt má gera betur og það mun hún gera.

Ársreikningar félagsins liggja nú frammi á skrifstofu félagsins.

07
Apr

Sjálfstætt starfandi læknar gera samkomulag um hækkun á einingaverði um 9,02%

Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherraÖgmundur Jónasson, heilbrigðisráðherraÍ gær var haldinn fundur sem heilbrigðisráðherra, Ögmundur Jónasson, boðaði til þar semstaða heilbrigðisþjónustunnar og framtíðarhorfur voru til umræðu. Til þessa fundar voru boðaðirallir trúnaðarmenn stéttarfélaga innan heilbrigðisþjónustunnar auk formenn stéttarfélaga innan Starfsgreinasambands Íslands og BSRB.

Mætingin á fundinn var afar góð og komu fjölmargar spurningar til ráðherra. Fram kom í máli hans að niðurskurður í heilbrigðiskerfinu á þessu ári er rétt tæpir 7 milljarðar og ljóst að slíkur niðurskurður mun bitna á þjónustunni. Það kom einnig fram í máli ráðherra að hann vilji reyna að verja störfin innan heilbrigðisþjónustunnar og reynt verði að gæta að hag þeirra tekjulægstu.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness tók til máls á fundinum og sagði afar brýnt að slegin yrði skjaldborg um þá sem væru á lægstu kjörunum en því miður hefur niðurskurður undanfarinna ára oft bitnað á þeim sem eru með hvað lægstu launin. Nægir að nefna í þeim efnum útboð í ræstingum, þvottahúsum og öðru slíku og sem dæmi þá hefur þvottahúsinu á Sjúkrahúsi Akraness verið lokað og við það töpuðust nokkur störf.

Formaður lagði einnig fyrirspurn fyrir ráðherra sem byggðist á því hvort ekki skyti skökku við að gengið hafi verið frá samkomulagi við sjálfstætt starfandi lækna þann 25. mars sl. um að einingarverð skyldi hækka úr 266 kr. í 290 kr. þann 1. júní nk. sem gerir 9,02% hækkun. Á sama tíma er verið að skera niður í heilbrigðiskerfinu um 6,7 milljarða og það liggur einnig fyrir að hér er um tekjuhæstu einstaklingana innan heilbrigðiskerfisins að ræða. Rétt er að geta þess að einingaverð til sjálfstætt starfandi lækna hækkaði 1. apríl 2008 úr 254 kr. í 266 kr. og þegar hækkunin í 290 kr. þann 1. júní nk. hefur tekið gildi þá hefur einingaverðið hækkað um 14% á rétt rúmu ári. Samkomulagið er hægt að skoða hér.

Það er einnig rétt að benda á að kjarasamningar ófaglærðra starfsmanna heilbrigðisstofnanna innan SGS rann út 31. mars sl. og ljóst að þetta samkomulag mun klárlega gefa tóninn í þeim viðræðum sem nú standa yfir við fjármálaráðherra. A.m.k. er það skoðun formanns Verkalýðsfélags Akraness að það gangi ekki upp að ganga frá slíku samkomulagi á sama tíma og verið er að skera niður launakjör hjá ófaglærðum í umtalsverðum mæli.

Ögmundi Jónassyni, heilbrigðisráðherra, var fullkunnugt um þetta samkomulag og kom fram í svari hans að hann hafi óskaði eftir því við sjálfstætt starfandi lækna að þeir myndu falla frá þessari hækkun en því hafi þeir alfarið hafnað. Þeir hafi hins vegar fallist á að fresta hækkuninni sem taka átti gildi 1. apríl sl. til 1. júní nk.

Formanni leikur forvitni á að vita hvað þessi einingahækkun muni þýða fyrir ríkissjóð og einnig hvort þessi hækkun muni ekki leiða til aukinnar gjaldtöku hjá sjúklingum. Það er einnig skoður Verkalýðsfélags Akraness að slegin verði skjaldborg um þá tekjulægstu og það sem verði til skiptanna hjá ríkissjóði komi til þeirra einstaklinga sem eru á lægstu laununum. Um þetta þarf að ríkja þjóðarsátt.

06
Apr

Ekki verði hróflað við lægstu launum

Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra hefur boðað trúnaðarmenn verkalýðsfélaga innan heilbrigðisþjónustunnar til fundar í dag til að ræða stöðu heilbrigðisþjónustunnar og framtíðarhorfur.

Samkvæmt gildandi fjárlögum eru greiðslur vegna trygginga, bóta og félagslegrar aðstoðar áætlaðar um 100 milljarðar króna, eða um fimmtungur allra fjárlaganna. Útgjöld til heilbrigðismála eru áætluð um 120 milljarðar króna. Fyrir liggur að skera þarf niður um sjö milljarða á þessu ári og enn meira á því næsta. Hvar eða hvernig skorið verður liggur ekki fyrir.

Heilbrigðisráðherra segir í fundarboði til trúnaðarmanna verkalýðsfélaga innan heilbrigðisþjónustunnar að aldrei hafi verið mikilvægara að standa vörð um heilbrigðisþjónustuna og til þess þurfi samstöðu allra sem innan hennar vinna. Velferðarmál séu líka atvinnumál.

„Það þarf að svara því hvernig menn sjá fyrir sér þennan niðurskurð. Það er gríðarlega mikilvægt að þjóðarsátt náist um að ekki verði hróflað við þeim sem lægst hafa launin innan heilbrigðisþjónustunnar. Þar er einfaldlega ekki af neinu að taka,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness

03
Apr

Fundað með heilbrigðisráðherra

Næstkomandi mánudag, 6. apríl, hefur Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra boðað til fundar með trúnaðarmönnum verkalýðsfélaga innan heilbrigðisþjónustunnar þar sem staða mála og framtíðarhorfur verða til umræðu. Segir í fundarboðinu að aldrei hafi verið mikilvægara að standa vörð um heilbrigðisþjónustuna og til þess þurfi samstöðu allra sem innan hennar vinna. Velferðarmál séu líka atvinnumál.

Fulltrúar Verkalýðsfélags Akraness á fundinum verða Anna Signý Árnadóttir og Ragnhildur Bjarnadóttir, trúnaðarmenn Sjúkrahússins og heilsugæslustöðvarinnar á Akranesi, auk Vilhjálms Birgissonar formanns VLFA.

01
Apr

Myntkörfulán að leggja marga að velli

Óhætt er að segja að vandi heimilanna sé ærinn þessi misserin sökum stóraukinnar greiðslubyrði heimilanna. Ráðamönnum þjóðarinnar hefur verið tíðrætt um lán sem tengjast húsnæðiskaupum og þeim hækkunum sem þau lán hafa tekið sökum stóraukinnar verðbólgu á liðnum mánuðum. Gríðarlega mikilvægt er að finna farsæla lausn á því hvernig vandi þessa hóps er leystur.

Það sem gleymst hefur í allri þessari umræðu er vandi gríðarlega stórs hóps sem er með svokölluð myntkörfulán sökum bílakaupa. Þessi lán hafa hækkað stórkostlega á undanförnum mánuðum og greiðslubyrðin í samræmi við þá hækkun. Við höfum séð dæmi þar sem fólk hefur tekið 2,4 milljóna myntkörfulán fyrir rúmu ári síðan en áramótastaða lánsins var rúmar 5 milljónir. Afborganir þessa láns höfðu hækkað um tugi þúsunda á mánuði. Annað dæmi sem kom inn á borð til okkar er lán upp á 1,5 milljónir. Þetta lán stendur í 2,3 milljónum í dag og hefur greiðslubyrðin aukist úr 26.000 kr. fyrir ári síðan, í 47.000 kr. í dag sem gerir 81% hækkun. Fjölmörg önnur dæmi hafa borist inn á borð skrifstofu félagsins og alveg ljóst að margir eru að kikna undan þessum lánum og afar brýnt að fundin verði lausn á vanda þessa fólks.

Fram hefur komið í máli alls þess fólks sem hefur leitað til félagsins að þegar það stofnaði til þessara skuldbindinga á sínum tíma þá gat það fyllilega staðið undir þeim. Var öllu þessu fólki ráðlagt að myntkörfulánin væru langhagkvæmasti kosturinn til bílakaupa en gengið gæti rokkað á bilinu 5-10% til eða frá.

Hægt er að leysa þennan vanda með því að færa gengisvísitöluna niður eins og hún var í eðlilegu árferði, sem var í kringum 130 stig og breyta síðan þeim lánum á því gengi í verðtryggð íslensk lán.

Það er alveg morgunljóst að á þessum vanda verður að taka og undrast margir að lítið sem ekkert hefur verið fjallað um þennan mikla vanda sem hér er á ferð af hálfu ráðamanna þjóðarinnar. Það er ljóst að þeir sem hafa lánað fólki til bílakaupa munu klárlega ganga á húseignir þess ef fólk ekki getur staðið í skilum með afborganir af bílalánum sínum einfaldlega vegna þess að veðhæfni bifreiðanna hefur ekki aukist í samræmi við hækkun lánanna sem á þeim eru.

Þessi staðreynd gerir það að verkum að jafn brýnt er að taka á þessum vanda eins og lánum sem lúta að íbúðarkaupum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image