• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
03
Feb

Starfsmenn Akraneskaupstaðar athugið!

Verkalýðsfélag Akraness vill minna félagsmenn sína sem starfa hjá Akraneskaupstað á réttindi sín er lúta að vinnu-, hlífðar- og einkennisfötum. Samkvæmt kjarasamningi eiga hinir ýmsu aðilar sem starfa hjá bæjarfélaginu rétt á fatnaði þeim að kostnaðarlausu. Sem dæmi þá eiga starfsmenn sem starfa á leikskólum rétt á buxum, skyrtu eða íþróttagalla ásamt bol og einnig ef um útivinnu er að ræða, kulda- og regngalla. Einnig eiga starfsmenn í íþróttamannvirkjum og sundlaugum Akraneskaupstaðar rétt á fríum fatnaði, buxum, skyrtu eða íþróttagalla ásamt bol sem og að klossar og stígvél séu til staðar fyrir óþrifaleg störf og kulda- og regngalla ef um útivinnu er að ræða.

Einnig er rétt að vekja athygli á réttindum þeirra sem starfa við heimilishjálp. Þeir eiga rétt á vinnusloppi, buxum, skyrtu eða bol og svona mætti í raun og veru lengi telja varðandi hina ýmsu hópa sem starfa á vegum sveitarfélagsins. Á þeirri forsendu er gríðarlega mikilvægt fyrir starfsmenn eins og áður sagði að kynna sér vel og rækilega þau réttindi sem í boði eru samkvæmt kjarasamningi en umræddar greinar varðandi fatnað eru í grein 8.2. í kjarasamningi Verkalýðsfélags Akraness við launanefnd sveitarfélaga. Réttindi til fatakaupa endurnýjast einu sinni á ári.

03
Feb

Mótframlag Norðuráls í séreignarsjóði starfsmanna verður áfram óbreytt

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá breytti ríkisstjórn Íslands tímabundið gildandi lögum um séreignarsjóði. Breytingin tók gildi 1. janúar 2012 og gildir til 31. desember 2014.

Samkvæmt nýjum lögum er framlag starfsmanns í séreignarsjóð er nú einungis skattfrjálst upp að 2%, en framlag umfram það er nú skattað. Þar er einnig kveðið á um að launagreiðendur eigi að setja alla launþega niður í 2ja% framlag og starfsmaðurinn sjálfur verði að óska sérstaklega eftir því, vilji hann greiða meira en 2%.

Vegna þessara laga ákvað Norðurál að senda starfsmönnum bréf þann 23. janúar sl. og tilkynnti að samhliða lækkun framlags starfsmanns í 2% myndi mótframlag fyrirtækisins lækka um 1% eða úr 6,5% niður í 5,5%.

Í kjarasamningum Norðuráls er kveðið á um að starfsmaður sem greiðir 1% fái 4,5% mótframlag frá fyrirtækinu og starfsmaður sem greiðir 2% fái 5,5%. Þeir starfsmenn sem kjósa að greiða 3% eða meira eiga að fá 6,5%. En eins og áður sagði þá kveða lögin á um að allir skuli settir niður í 2% og á þeirri forsendu ætlaði fyrirtækið að lækka starfsmenn um 1% eins og áður sagði.

Þessu mótmælti Verkalýðsfélag Akraness harðlega, sem og önnur stéttarfélög sem eiga aðild að kjarasamningi við Norðurál, á grundvelli þess að það var ekki skilningur laganna að þetta myndi skaða launafólk að óþörfu. Á þessi rök féllust forsvarsmenn Norðuráls í gær og þeir starfsmenn sem voru að greiða 3-4% fyrir gildistöku laganna munu áfram fá 6,5% mótframlag þótt þeirra eigin framlag hafi verið lækkað niður í 2%.

Þetta er mjög ánægjuleg niðurstaða, því hér getur verið um umtalsverða hagsmuni að ræða fyrir hvern starfsmann. 1% mótframlag atvinnurekenda í séreignasjóð þýðir um 60.000 kr. á ársgrundvelli. Á því sést að hér er um mikla hagsmuni að ræða fyrir þá starfsmenn sem um ræðir.

Það er hins vegar ámælisvert af hálfu ríkisstjórnarinnar að hafa ráðist á séreignarsparnað launafólks jafnillilega og gert var í þessum lögum því starfsmaður sem kýs að vera með framlag sitt umfram 2% mun lenda í tvískattlagningu og eðli málsins samkvæmt er ekki mikill hagur af slíkum sparnaði fyrir þann sem slíka ákvörðun tekur. Á þeirri forsendu er ekki annað hægt en að fordæma þessi vinnubrögð hjá ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju.

01
Feb

Trúnaðarmannanámskeið verður haldið 21.-23. mars

Dagana 21. til 23. mars mun Verkalýðsfélag Akraness bjóða upp á trúnaðarmannanámskeið fyrir trúnaðarmenn sína. Það er Félagsmálaskóli Alþýðu sem skipuleggur námskeiðið.

Á námskeiðinu verður m.a. farið yfir hlutverk stéttarfélaga, sambanda og heildarsamtaka á vinnumarkaði, hlutverk trúnaðarmanns á vinnustað, hlutverk trúnaðarmanna samkvæmt lögum og kjarasamningum og íslenskur vinnuréttur skv. lögum og reglugerðum kynntur fyrir nemendum.

Starf trúnaðarmanna er afar mikilvægt fyrir starfsemi félagsins og þurfa þeir að taka á ýmsum erfiðum málum í sínu starfi. Námskeiðinu er ætlað að gera trúnaðarmönnunum betur kleift að takast á við starf sitt. Samkvæmt kjarasamningum er trúnaðarmanni heimilt að sækja slík námskeið í allt að eina viku á ári án skerðingar á dagvinnulaunum.

Skráning er hafin á skrifstofu VLFA í síma 4309900.

01
Feb

Launakröfur að verða klárar

Eins og áður hefur verið greint frá var trésmiðjan TH úrskurðuð gjaldþrota í desember síðastliðnum. TH starfsrækti tvö trésmíðaverkstæði, annað á Akranesi (áður Trésmiðja Þráins) og hitt á Ísafirði (áður Trésmiðjan Hnífsdal). Samtals unnu um 30 manns hjá fyrirtækinu.

Í lögum um gjaldþrotaskipti eru launakröfur skilgreindar sem forgangskröfur í þrotabúið og kemur það í hlut Ábyrgðasjóðs launa að ábyrgjast greiðslur þeirra.

Skrifstofa VLFA er nú að ljúka vinnu við kröfulýsingu í þrotabúið vegna vangreiddra launa þeirra félagsmanna sinna sem störfuðu hjá fyrirtækinu, en frestur til að skila henni inn rennur út í lok mánaðarins. Áætlað er að þessi krafa vegna vangreiddra launa, launa í uppsagnarfresti, orlofs og desember- og orlofsuppbóta nemi ríflega 11 milljónum króna.

27
Jan

Fiskvinnslunámskeið fyrir starfsmenn HB Granda

Nú er að hefjast fiskvinnslunámskeið fyrir starfsmenn HB Granda á Akranesi en samkvæmt kjarasamningi hækka starfsmenn við slíkt námskeið um tvo launaflokka. Með öðrum orðum, þeir fara úr launaflokki 5 sem er almennur fiskvinnslumaður og í sérhæfðan fiskvinnslumann sem er launaflokkur 7.

Því til viðbótar var samið um í síðustu samningum að sérhæfður fiskvinnslumaður sem lokið hefur slíku námskeiði getur farið í viðbótarfiskvinnslunám sem veitir honum tveggja flokka launahækkun til viðbótar sem þýðir að viðkomandi fer í launaflokk 9.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness mun á mánudaginn fara yfir réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði og jafnframt gera grein fyrir hinum ýmsu bónuskerfum sem nú eru í gildi og sýna hver meðaltalsbónus á landinu er sem og hér á Akranesi. Það er skemmst frá því að segja að það er mismunandi á milli fiskvinnslufyrirtækja hver bónus fiskvinnslufólks er. Meðaltalsbónus á landsvísu er 290 kr. en á Akranesi er meðaltalsbónusinn hins vegar 350 kr sem er rúmlega 20% hærri bónus en á landsvísu.

Launataxtar fiskvinnslufólks munu hækka um 11 þúsund krónur frá og með 1. febrúar næstkomandi og einnig mun bónusinn hækka um 3,5% en þó að lágmarki um 10 krónur pr. klst.  

26
Jan

Samið um hækkun kauptryggingar og annarra kaupliða sjómanna

Þann 20. janúar skrifaði Sjómannasamband Íslands undir samkomulag við LÍÚ um hækkanir á kauptryggingu og öðrum kaupliðum frá 1. febrúar nk.

Kjarasamningar sjómanna á fiskiskipum hafa verið lausir frá 1. janúar 2011 og ekki útlit fyrir breytingar á því á næstunni. Í desember 2010 lýsti formaður LÍÚ því yfir að ekki yrði samið við sjómenn fyrr en niðurstaða fengist varðandi fyrirhugaðar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Niðurstaða í því máli hefur ekki enn fengist og því nánast engar viðræður í gangi milli aðila um endurnýjun kjarasamningsins. Á aðalfundi sjómannadeildar VLFA sem haldinn var 28. desember 2011 voru kjarasamningar m.a. til umræðu og var það mat fundarmanna að algjörlega óásættanlegt væri að halda kjarasamningum sjómanna í herkví vegna ágreinings útgerðarmanna við stjórnvöld. Hins vegar voru fundarmenn sammála um að ámælisvert sé af stjórnvöldum hversu lengi það hefur dregist að leggja fram breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu

Þrátt fyrir samningsleysið hefur LÍÚ fallist á að hækka kauptryggingu og aðra kaupliði hjá sjómönnum um sömu prósentuhækkun og samið var um á almenna vinnumarkaðnum. Hækkunin nemur 3,5% og tekur gildi 1. febrúar næstkomandi eins og áður sagði.

Hér er hægt að nálgast samkomulagið í heild sinni.

Hér er hægt að nálgast nýja kaupskrá fyrir sjómenn sem tekur gildi 1. febrúar 2012.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image