• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
24
May

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness lýsir vantrausti á forseta ASÍ

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness lýsir yfir vantrausti á forseta ASÍ og vill stjórn félagsins að það komi skýrt fram að hann hefur hvorki umboð né heimild til að halda áfram viðræðum við stjórnvöld um málefni er tengjast aðkomu stjórnvalda að komandi kjarasamningum fyrir hönd Verkalýðsfélag Akraness.  Einnig er rétt að árétta að félagið hafnar öllum afskiptum forseta ASÍ af viðræðum við Samtök atvinnulífsins vegna komandi kjarasamningagerðar.

Það er bjargföst skoðun stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að forseti ASÍ hafi á liðnum misserum og árum ítrekað unnið gegn hagsmunum félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness og skuldsettum heimilum þessa lands. 

Það er ljóst að grasrótin innan Alþýðusambands Íslands hefur á liðnum misserum hafnað samræmdri láglaunastefnu sem stjórnað hefur verið af hugmyndafræði og undir forystu forseta ASÍ.  Kosningar í VR og Eflingu nýverið sýna og sanna að þessari hugmyndafræði hefur algerlega verið hafnað og kallað er eftir róttækari og herskárri verkalýðsbaráttu þar sem hagsmunir auðvaldsins og fjármálakerfisins verða látnir víkja fyrir hagsmunum almennings.

Það er ljóst að stjórn Verkalýðsfélags Akraness treystir forseta ASÍ alls ekki til að leiða þá kerfisbreytingu sem hinn almenni félagsmaður er að kalla eftir, kerfisbreytingum sem byggjast á að taka á okurvöxtum, okurleigu, verðtryggingu og endurskoða lífeyrissjóðakerfið þar sem hagsmunir launafólks verði hafðir að leiðarljósi.

Það er mat stjórnar VLFA að forseti ASÍ njóti alls ekki stuðnings og trausts hins almenna félagsmanns innan Alþýðusambands Íslands og því er óhjákvæmilegt annað en að lýsa þessu vantrausti yfir í ljósi þess að forseti ASÍ er í dag búinn að taka sér það vald að hefja viðræður við stjórnvöld um aðkomu stjórnvalda að komandi kjarasamningum.  Einnig er þetta vantraust til komið vegna þess að forsetinn hefur ítrekað unnið gegn hagsmunum félagsmanna VLFA og skuldsettra heimila og verið tilbúinn til að verja fjármálakerfið á kostnað félagsmanna sinna.

Einnig hefur ASÍ að undanförnu birt alveg fordæmalaus áróðursmyndbönd þar sem fram kemur að ekki skipti máli um hversu margar krónur samið sé um heldur sé það kaupmátturinn sem skipti öllu máli.

Vantraust stjórnar Verkalýðsfélags Akraness byggist m.a. á eftirfarandi forsendum:

  • Forseti ASÍ ber ábyrgð á hræðsluáróðursauglýsingaherferð sem birst hefur að undanförnu á samfélagsmiðlum.
  • Forseti ASÍ barðist gegn því í október 2008 að neysluvísitalan yrði tekin úr sambandi vegna verðbólguskotsins sem fylgdi í kjölfar hrunsins. Ástæðan var sú að það myndi kosta fjármálakerfið 200 til 300 milljarða! Skítt með verðtryggðar skuldir heimilanna sem hækkuðu um 400 milljarða, þeim mátti fórna á blóðugu altari verðtryggingar.
  • Forseti ASÍ lagðist alfarið gegn því að forsendubrestur heimilanna yrði leiðréttur í kjölfar hrunsins.
  • Forseti ASÍ vildi að íslenskir skattgreiðendur myndu ábyrgjast og greiða Icesave.
  • Forseti ASÍ lagðist gegn ályktun sem VLFA lagði fram á þingi ASÍ um að ASÍ myndi beita sér fyrir afnámi verðtryggingar og þak yrði sett á óverðtryggða vexti.
  • Forseti ASÍ lagðist gegn tillögu VLFA á þingi ASÍ um að auka lýðræðið við stjórnarval í lífeyrissjóðunum og að atvinnurekendur færu úr stjórnum sjóðanna.
  • Forseti ASÍ er hugmyndafræðingur samræmdrar láglaunastefnu enda liggur fyrir að honum fannst krafa samninganefndar SGS árið 2015 um að hækka lágmarkslaun í 300 þúsund á mánuði of há.
  • Forseti ASÍ gagnrýndi Samtök atvinnulífsins í ræðu á 1. maí árið 2011 um að hafa gengið frá of góðum kjarasamningi við Verkalýðsfélag Akraness vegna starfsmanna á Grundatanga.
  • Forseti ASÍ gekk frá Salek samkomulaginu án þess að bera það undir flest aðildarfélög innan SGS en í þessu samkomulagi var verið að takmarka samningsrétt stéttarfélaganna enda skýrt kveðið á um að aðildarfélögin máttu ekki semja um meira en 32% launahækkun á tímabilinu nóvember 2013 til ársloka 2018.
  • Forseti ASÍ samdi við Samtök atvinnulífsins um tilgreinda séreign þar sem reynt var að þvinga launafólk til að greiða eingöngu til lífeyrissjóðanna þrátt fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi ítrekað bent á að launafólk hefði val um að velja sér vörsluaðila til að ávaxta sína séreign.

Þessi atriði eru alls ekki tæmandi þar sem stjórn VLFA telur að forseti ASÍ hafi unnið gegn hagsmunum félagsmanna VLFA en þessi atriði sýna og sanna að þetta vantraust á forseta ASÍ er alls ekki tilefnislaust.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image