Sunnubraut 13 | 300 Akranes | Sími 4309900 | Fax 430 9901 | skrifstofa@vlfa.is
Stærra letur Minna letur
0

SÉRKJÖR OG AFSLÆTTIR

 • Apótek Vesturlands
 • Bílar og dekk
 • Brautin ehf
 • Galleri Ozone
 • LH bókhald ehf
 • Model - Ormsson
 • N1
 • Olís
 • Omnis
 • Pípulagningafélag Lýðveldisins
 • Rafþjónusta Sigurdórs ehf
 • Snyrtistofan Dekur
 • Trésmiðjan Akur
 • VÍS 
 • Ökukennsla Sigga Trukks 
 • Knattspyrnufélag ÍA

0
0

LÖGFRÆÐIÞJÓNUSTA 

Félagsmenn geta fengið ókeypis lögfræðirágjöf hjá lögmanni félagsins með því að panta sér viðtalstíma á skrifstofu félagsins í síma 430-9900

 

0
31. október 2014

Dómarar EFTA-dómstólsins
Eins og flestir vita þá er Verkalýðsfélag Akraness með mál fyrir  EFTA- dómstólnum þar sem óskað hefur verið eftir ráðgefandi áliti um hvort heimilt sé að miða við 0% verðbólgu í lánasamningum og greiðsluáætlunum lántakenda.

Spurningin sem VLFA er með fyrir EFTA- dómstólnum er eftirfarandi:

 

 1. Samrýmist það ákvæðum tilskipunar nr. 87/102/EBE um neytendalán, eins og tilskipuninni var breytt með tilskipun nr. 90/88/EBE og tilskipun nr. 98/7/EB, að við gerð lánssamnings, sem bundinn er vísitölu neysluverðs samkvæmt heimild í settum lögum og tekur því breytingum í samræmi við verðbólgu, sé við útreikning á heildarlántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar, sem birtur er lántaka við samningsgerðina, miðað við 0% verðbólgu en ekki þekkt verðbólgustig á lántökudegi?

 

Nú liggur fyrir samkvæmt dagskrá að EFTA-dómstóllinn mun gefa sitt ráðgefandi álit í þessu risavaxna hagsmunamáli íslenskra neytenda  þann 24. nóvember nk. klukkan 09:00.

 

Það er morgunljóst að hér er um risavaxið mál að ræða enda liggur fyrir að bara verðtryggð lán íslenskra heimila nema um 1700 milljörðum og um 90% allra lánasamninga eru með greiðsluáætlun þar sem miðað er við 0% verðbólgu. Það er einnig morgunljóst að það mun hafa mikil áhrif ef verðbótaþáttur lánasamningana verður dæmdur ólöglegur enda getur verið um tugi ef ekki hundruð milljarða að ræða í leiðréttingu fyrir íslensk heimili.

 

Á þessari stundu er mjög erfitt að segja til um hvernig þetta ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins mun hljóða en það er æði margt sem bendir til þess að dómstóllinn muni komast að þeirri niðurstöðu að óheimilt sé með öllu að miða við 0% verðbólgu í lánasamningum. Enda liggur fyrir að framkvæmdastjórn ESB og eftirlitsstofnun  ESA hafa látið hafa eftir sér að slíkt sé ólöglegt.  Þessu til viðbótar hefur Neytendastofa kveðið upp útskurð hér á landi um að slíkt sé ólöglegt.

 

Á þessum forsendum verður gríðarlega forvitnilegt að sjá hvernig þetta ráðgefandi álit mun hljóða en rétt er að vekja sérstaka athygli á því að íslenskir dómstólar hafa aldrei dæmt gegn áliti EFTA-dómstólsins.

 

 

 

28. október 2014

Nú liggur fyrir þingsályktunartillaga frá Elsu Láru Arnardóttur um útreikning á nýjum neysluviðmiðum fyrir íslensk heimili. Verkalýðsfélag Akraness hefur nú skilað umsögn vegna þessarar tillögu og er skemmst frá því að segja að Verkalýðsfélag Akraness fagnar innilega þessari tillögu enda byggir hún á því að finna út með afgerandi hætti hver raunveruleg neysluviðmið íslenskra heimila eiga að vera.  

 

Það skiptir miklu máli fyrir verkalýðshreyfinguna að fá nákvæma tölu um hvað einstaklingur þarf í lágmarksframfærslu á mánuði því það hlýtur að vera stefna aðila vinnumarkaðarins að lágmarkskjör á Íslandi dugi að lágmarki fyrir framfærslukostnaði hvers mánaðar fyrir sig. Enda fékk Verkalýðsfélag Akraness samþykkta á nýafstöðnu þingi ASÍ tillögu er laut að því að hækka þurfi lágmarkslaun á Íslandi þannig að þau dugi fyrir lágmarksframfærslu. Hinsvegar er það morgunljóst að lágmarkslaun í dag duga engan veginn fyrir lágmarksframfærslu sem hið opinbera hefur gefið út.

 

Hægt er að lesa umsögn félagsins hér.

27. október 2014

Formaður VLFA á þingi ASÍ
Þriggja daga þingi Alþýðusambands Íslands lauk á föstudaginn og er óhætt að segja að fulltrúar Verkalýðsfélags Akraness hafi eins og svo oft áður tekið virkan þátt í þeirri vinnu sem fram fór þar.

 

Meðal annars flutti formaður félagsins ræðu á miðvikudeginum og féll hún í góðan jarðveg á meðal fulltrúa þingsins. Einnig lagði félagið fram nokkrar breytingartillögur á þeim ályktunum sem lagðar voru fyrir þingið. Sumar breytingarnartillögurnar náðust í gegn og aðrar ekki en það er eins og gengur og gerist. Félagið náði til dæmis í gegn breytingu sem tengist lágmarkslaunum. Í ályktuninni sem VLFA lagði fram kemur fram að hækka þurfi lágmarkslaun þannig að þau dugi fyrir lágmarksframfærslu. Hinsvegar var tillaga um afnám verðtryggingar á neytenda- og húsnæðislánum og að sett yrði þak á slík lán felld. Það verður að segjast alveg eins og er að fulltrúar Verkalýðsfélags Akraness voru afar undrandi á því að þessi tillaga hafi verið felld. Hvernig er hægt að vera á móti því að afnema verðtryggingu og setja þak á vexti?

 

Formaður félagsins sagðist hræðast það að forysta Alþýðusambands Íslands hafi í hyggju að fara aftur leið samræmdrar launastefnu, launastefnu sem svo sannarlega hefur sýnt að hefur komið sér illa fyrir verkafólk og iðnaðarmenn. Það liggur fyrir að þessir hópar hafa setið eftir, ekki bara í síðustu samningum heldur um alllanga hríð.

 

Formaður gagnrýndi einnig að honum fyndist vanta meiri kraft í ályktanir er tengjast kjaramálum en kraftinn vantar hinsvegar ekki í ályktanir er tengjast gagnrýni á stjórnvöld og er það vel. Enda er það hlutverk hreyfingarinnar að veita stjórnvöldum á hverjum tíma fyrir sig aðhald. Hinsvegar er það orðið hálf hjákátlegt að sami kraftur skuli ekki beinast að okkar aðal viðsemjanda sem er að sjálfsögðu Samtök atvinnulífsins.   

23. október 2014

Í gær hófst 41. þing Alþýðusambands Íslands og lýkur því á morgun. Þing ASÍ er haldið á tveggja ára fresti og á hvert aðildarfélag rétt á því að senda a.m.k. einn fulltrúa á þing sambandsins og fer fjöldi fulltrúa eftir stærð hvers félagsins. Alls eru þingfulltrúarnir 300. Verkalýðsfélag Akraness á 8 þingfulltrúa í ár, en það eru þau Vilhjálmur Birgisson, Hafsteinn Þórisson, Skúlína Hlíf Guðmundsdóttir, Guðrún Linda Helgadóttir, Jóna Adolfsdóttir, Hafþór Pálsson, Kristófer Jónsson og Sigurður Guðjónsson.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, flutti ræðu á þinginu í gær þar sem hann gagnrýndi harðlega þá vegferð sem ASÍ hefur verið á hvað kjaramál varðar og þá samræmdu láglaunastefnu sem farið hefur verið eftir í tveimur síðustu samningum verkafólks og iðnaðarmanna. Í ræðu sinni fór hann meðal annars yfir það hvernig Samtök atvinnulífsins og forysta ASÍ reyna að telja almenningi í trú um að ætið sé samið um langmestu launahækkanir til handa þeim tekjulægstu og sagði "rétt að ítreka það að prósentur segja ekki nema hálfan sannleikann þegar fjallað er um launahækkanir hópa og prósentur eru algerlega til þess fallnar að blekkja íslenskt verkafólk. Það sem skiptir launafólk mestu máli er hversu margar krónur það fær í sitt launaumslag, ekki prósentur. Það liggur fyrir að ef 1 króna er sett ofan á aðra krónu þá er það hækkun upp á 100%. Já kæru félagar, prósentur blekkja og það er grátbroslegt þegar forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins og reyndar fleiri standa og öskra hátt og skýrt: lágmarkslaun hafa hækkað mest og reka svo út kassann og segja: okkur hefur tekist að verja kaupmátt lægstu launa."

Vilhjálmur fór einnig yfir þróun lágmarkslauna frá árinu 1998 og bar saman við launaþróun forstjóra nokkurra stórfyrirtækja: "Í fyrsta lagi voru lágmarkslaun á Íslandi árið 1998 70.000 kr. Núna 16 árum seinna eru þau komin upp í 214 þúsund á mánuði sem gerir hækkun uppá 206%. Á bakvið þessi 206% er krónutöluhækkun sem nemur einungis 144.000 krónum á 16 árum sem þýðir að lágmarkslaun  hafi hækkað að meðaltali um 9.000 kr. á ári þessi 16 ár. En takið eftir, næstráðendur íslenskra fyrirtækja hækkuðu um 600.000 kr. á mánuði bara á árinu 2013. Málið er líka að við förum ekki í Bónus eða aðrar verslanir og greiðum með prósentum, við borgum með krónum.

En hvað skyldu laun forstjóra nokkurra stórfyrirtækja hafa hækkað frá 1998? Skoðum það aðeins. Árið 1998 var forstjóri ESSO sem núna er N1 með árstekjur uppá 18,7 milljónir. Í dag er forstjóri N1 með 52 milljónir. Hefur hækkað um rúmar 33 milljónir á ári eða sem nemur tæpum 3 milljónum á mánuði. Hækkun upp á 176,5%. Forstjóri Flugleiða var með 13,9 milljónir í árslaun árið 1998. Núverandi forstjóri Icelandair Group er hinsvegar með laun sem nema rúmum 44 milljónum á ári sem er hækkun um rétt rúmar 30 milljónir á ári eða sem nemur rúmri 2 og hálfri milljón á mánuði. En takið eftir þetta er prósentuhækkun upp á 218%. Forstjóri Eimskips var með 27,6 milljónir í árslaun árið 1998 en núverandi forstjóri Eimskips er sagður vera með 90,5 milljónir sem gerir hækkun um 63 milljónir á ári eða 5,2 milljónir á mánuði. Þetta er hækkun upp á 228%. Já þessir snillingar eru svo sannarlega búnir að hugsa um sig. Hafa hækkað um milljónir á mánuði og meira að segja með hærri prósentuhækkun en hækkun lágmarkslauna á sama tímabili."

Ræða Vilhjálms hlaut afar góðar undirtektir hjá þingfulltrúum og er hægt að lesa hana í heild sinni með því að smella hér.

 

22. október 2014
15. október 2014
0
0