Sunnubraut 13 | 300 Akranes | Sími 4309900 | Fax 430 9901 | skrifstofa@vlfa.is
Stærra letur Minna letur
0

SÉRKJÖR OG AFSLÆTTIR

 • Apótek Vesturlands
 • Bílar og dekk
 • Brautin ehf
 • Galleri Ozone
 • LH bókhald ehf
 • Model - Ormsson
 • N1
 • Olís
 • Omnis
 • Pípulagningafélag Lýðveldisins
 • Rafþjónusta Sigurdórs ehf
 • Snyrtistofan Dekur
 • Trésmiðjan Akur
 • VÍS 
 • Ökukennsla Sigga Trukks 
 • Knattspyrnufélag ÍA

0
0

LÖGFRÆÐIÞJÓNUSTA 

Félagsmenn geta fengið ókeypis lögfræðirágjöf hjá lögmanni félagsins með því að panta sér viðtalstíma á skrifstofu félagsins í síma 430-9900

 

0
29. maí 2015

Rétt í þessu voru undirritaðir kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði en það er óhætt að segja að mikið hafi gengið á við gerð þessa kjarasamnings. Sem dæmi þá hefur Verkalýðsfélag Akraness ásamt aðildarfélögum SGS nú þegar tekið 3 daga í verkfall en slíkt hefur ekki gerst í áratugi að verkafólk hafi þurft að beita verkfallsvopninu til að knýja fram sínar sanngjörnu kröfur um að lágmarkslaun hækki umtalsvert. Í dag er VLFA til dæmis að greiða út á 6. milljón króna í verkfallsbætur til félagsmanna sem sýnir svo ekki verður um villst hversu mikil harka var komin í þessa deilu.

 

Innihald samningsins verður ítarlega kynnt eftir helgi en það má segja að meginkrafa verkalýðshreyfingarinnar hafi náðst fram sem var að lágmarkslaun á Íslandi myndu ná 300.000 kr. innan þriggja ára. Það er alveg morgunljóst að þessi samningur er að koma tekjulægsta fólkinu hvað best þó það skuli fúslega viðurkennast að öll aðildarfélög SGS hefðu viljað ná meiru fram. En þannig er það í allri kjarasamningsgerð að það næst aldrei allt fram og baráttan fyrir bættum kjörum verkafólks er eilíf og er hvergi nærri lokið.

 

Það liggur fyrir að taxtar verkafólks munu hækka um 25.000 kr. frá og með 1. maí næstkomandi ásamt því að skorinn verður einn launaflokkur af launatöflunni en rétt er að vekja sérstaka athygli á því að langstærstur hluti félagsmanna VLFA sem tekur laun eftir þessum kjarasamningi er fiskvinnslufólk sem starfar hjá HB Granda á Akranesi en um er að ræða á þriðja hundrað manns. Í því samhengi er rétt að vekja athygli á að VLFA var búið að ganga frá bónussamningi við HB Granda sem var að skila fiskvinnslufólkinu allt að 51.000 kr. launahækkun þannig að þegar taxtahækkunin verður komin til viðbótar má segja að flest fiskvinnslufólk á Akranesi muni hækka strax á fyrsta ári með bónussamningnum um tæpar 80.000 kr. á mánuði .

 

Orlofs- og desemberuppbætur munu líka hækka ásamt fjölmörgum atriðum sem tengjast kjarasamningnum. Sem dæmi náði SGS fram tveggja flokka launahækkun til handa fiskvinnslufólki sem starfað hefur í 7 ár hjá sama atvinnurekanda sem skilar því tæpum 4.000 kr. auka hækkun. En eins og áður sagði mun formaður fara ítarlega yfir samninginn hér á heimasíðunni og einnig verður boðið upp á víðtækar kynningar á kjarasamningnum í komandi viku.

 

Rétt er að taka fram að aðkoma stjórnvalda til að liðka fyrir gerð kjarasamninga skiptir miklu máli. Þar má nefna fyrirhugaðar heildarlækkanir á tekjuskatti einstaklinga sem á að auka ráðstöfunartekjur um 50-100 þúsund á ári. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar tengjast skatta-, velferðar- og húsnæðismálum og eiga að stuðla að bættum kjörum almennings.

 

En eins og áður sagði hefðu allir viljað ná enn lengra í þessum samningum en grundvallaratriðið er að 300.000 kr. markmiðið náðist. Þessi kjarasamningur beinist að þeim tekjulægstu þannig að með það í farteskinu brosa menn örlítið út í annað og nú verður baráttan að halda áfram af fullum þunga til að bæta kjör verkafólks á íslenskum vinnumarkaði enn frekar og það verður gert af sama krafti af hálfu Verkalýðsfélags Akraness og áður.

 

29. maí 2015

Vilhjálmur Birgisson afhendir Magnúsi Péturssyni kveðjugjöf frá VLFA
Nú liggur fyrir að Magnús Pétursson, ríkissáttasemjari, er að láta af störfum og í tilefni þess ákvað formaður Verkalýðsfélags Akraness að afhenda ríkissáttasemjara smá gjöf frá félaginu. Meðal annars fékk hann veglegan blómvönd og Vilko vöffluduft ásamt smá drykk til að skola því niður með. Vöffluduftið getur Magnús notað þegar hann vill rifja upp góða tíma úr Karphúsinu en það er morgunljóst að Magnús hefur verið afar farsæll í starfi sem ríkissáttasemjari og munu margir sakna hans enda hefur hann staðið sig með afbrigðum vel í þessu mjög svo vandasama og erfiða starfi.

 

Formaður Verkalýðsfélags Akraness vill fyrir hönd félagsmanna þakka Magnúsi kærlega fyrir farsælt og ánægjulegt samstarf á liðnum árum með ósk um góða tíma og velferð á komandi árum.  

27. maí 2015

Nú stendur yfir samningafundur hjá fulltrúum Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Viðræður eru hafnar af fullum þunga og gert hefur verið samkomulag milli viðræðuaðila að fresta fyrirhuguðum verkföllum um 6 daga. Verkföllin sem áttu að standa yfir næstu tvo sólarhringa (28. og 29. maí) hefur því verið frestað til 3. og 4. júní verði samningur ekki gerður fyrir þann tíma.

 

 

 

26. maí 2015

Það er óhætt að segja að það sé komin upp alveg ótrúlega flókin og undarleg staða í kjaraviðræðum á hinum almenna vinnumarkaði. En nú berast fregnir af því að drög að nýjum samningi á milli Flóabandalagsins, VR og Samtaka atvinnulífsins liggi í loftinu en þessir aðilar hafa frestað boðuðu verkfalli um fimm daga en verkafallið átti að hefjast á miðnætti annað kvöld.

 

Rétt er að vekja strax athygli á því að landsbyggðarfélögin innan Starfsgreinasambands Íslands hafa ekki frestað boðuðu verkfalli sem mun hefjast á miðnætti á morgun. Ástæðan fyrir því er einföld, landsbyggðarfélögin hafa ekkert heyrt frá Samtökum atvinnulífsins og vita því ekkert um innihaldið í þessum samningsdrögum sem liggja fyrir á milli áðurnefndra aðila.

 

Formaður lýsir yfir fullkominni vanþóknun á þessum vinnubrögðum Samtaka atvinnulífsins í ljósi þess að landsbyggðarfélögin hafa nú þegar tekið þrjá daga í verkföll og næsta verkfallshrina hefst eftir einungis 36 klukkutíma. SA virðist líta landsbyggðarfyrirtækin allt öðrum augum en fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu og varla eru landsbyggðarfyrirtækin sem tilheyra SA ánægð með að ekki sé reynt að forða verkfallsaðgerðum á landsbyggðinni eins og gert er á höfuðborgarsvæðinu.

 

En hvað skyldi vera í þessum samningsdrögum sem Flóinn og VR eru að kokka upp?  Formenn innan SGS hafa því miður ekki fengið neinar upplýsingar aðrar en þær sem birst hafa í fjölmiðlum. En við fyrstu sýn virðist sem Flóinn og VR séu að semja á grundvelli kröfugerðar landsbyggðarfélaganna sem byggist á þriggja ára samningi en rétt er að vekja athygli á að Flóinn og VR voru búin að gefa út að þau vildu bara semja til eins árs því þau treystu ekki stjórnvöldum en það er greinilegt að traustið á stjórnvöld er komið til baka.

 

Einnig kom fram í fréttum í dag að krafa landsbyggðarfélaganna um að lágmarkslaun verði orðin 300.000 kr. innan þriggja ára sé til umræðu á milli SA og Flóans og VR en þá kröfu hafa þessi félög ekki verið með hingað til enda viljað semja til eins árs eins og áður sagði.

 

En það er morgunljóst að æði margt á eftir að skýrast eins og t.d:

 • ·         Hvað eiga launataxtar verkafólks að hækka mikið?
 • ·         Verða lágmarkslaunin orðin 300.000 kr. innan þriggja ára?
 • ·         Frá hvaða tíma á samningurinn að gilda? Nú eru að verða liðnir 3 mánuðir frá því samningurinn rann út.
 •           Verður greidd einsgreiðlsa vegna þess að samningurinn hefur dregist um tæpa þrjá mánuði?
 • ·         Hvað með sérstakar hækkanir hjá þeim sem starfa í útflutningsgreinunum eins og t.d. ferðaþjónustunni og fiskvinnslunni?

 

Fyrirgefið en af fenginni reynslu hefur formaður VLFA gríðarlegar áhyggjur af því að verkalýðshreyfingin klúðri því dauðafæri sem nú hefur skapast til að lagfæra kjör verkafólks svo um munar. En stöðunni sem verkalýðshreyfingin er með núna má líkja við vítaspyrnu í knattspyrnuleik þar sem boltanum hefur verið stillt upp á vítapunkti og það er enginn í markinu. Formaður vonar að verkalýðshreyfingin ætli ekki að leika sér að því að skjóta himinhátt yfir og klúðra því gullna tækifæri sem hún hefur til þess að lagfæra kjör þeirra sem lökust kjörin hafa.

 

Formaður vonar að það verði samið þannig að laun verkafólks dugi fyrir þeim lágmarksframfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út og líka þannig að okkar félagsmenn geti haldið mannlegri reisn.  En eins og staðan er núna þá er ekkert sem bendir til annars en að verkfall á landsbyggðinni skelli á af fullum þunga á miðnætti annað kvöld. Allavega hafa landsbyggðarfélögin enga forsendu til að áætla annað eins og staðan er akkúrat núna.

 

 

6. maí 2015
20. apríl 2015
0
0