Sunnubraut 13 | 300 Akranes | Sími 4309900 | Fax 430 9901 | skrifstofa@vlfa.is
Stærra letur Minna letur
0

SÉRKJÖR OG AFSLÆTTIR

 • Apótek Vesturlands
 • Bílar og dekk
 • Brautin ehf
 • Galleri Ozone
 • LH bókhald ehf
 • Model - Ormsson
 • N1
 • Olís
 • Omnis
 • Pípulagningafélag Lýðveldisins
 • Rafþjónusta Sigurdórs ehf
 • Snyrtistofan Dekur
 • Trésmiðjan Akur
 • VÍS 
 • Ökukennsla Sigga Trukks 
 • Knattspyrnufélag ÍA

0
0

LÖGFRÆÐIÞJÓNUSTA 

Félagsmenn geta fengið ókeypis lögfræðirágjöf hjá lögmanni félagsins með því að panta sér viðtalstíma á skrifstofu félagsins í síma 430-9900

 

0
29. ágúst 2014

Frá fundinum með starfsmönnum Steypuskála
Verkalýðsfélag Akraness hélt fjölmennan fund með starfsmönnum steypuskála Norðuráls á þriðjudaginn síðastliðinn. Tilefni fundarins var umkvörtun starfsmanna yfir stórauknu álagi á undanförnum misserum. Óskuðu starfsmenn eftir aðstoð félagsins við að reyna að koma óánægju þeirra vel á framfæri.

 

Það liggur fyrir að álag á starfsmenn Norðuráls vítt og breitt um verksmiðjuna hefur aukist á liðnum árum og er það samróma álit þeirra sem þar starfa. Ástæðan er margþætt, meðal annars hefur framleiðsla fyrirtækisins aukist umtalsvert og sem dæmi þá er fyrirtækið að framleiða uppundir 300.000 tonn af áli ár hvert. Á sama tíma og það hefur verið að gerast hefur starfsmönnum á gólfi, ef þannig má að orði komast, fækkað töluvert. Það liggur til dæmis fyrir að launakostnaður Norðuráls vegna verkafólks lækkaði á milli áranna 2012 og 2013 um 3,1% og þegar tekið hefur verið tillit til kjarasamningsbundinna hækkana á tímabilinu þá nemur þessi lækkun 6,6%.

 

Þetta er einfaldlega vegna þess að starfsmönnum hefur fækkað þrátt fyrir þessa miklu framleiðsluaukningu fyrirtækisins sem síðan kemur fram sem stóraukið álag á þá starfsmenn sem eftir eru. Það var mikill hiti í starfsmönnum steypuskála á fundinum sem töluðu um að þeir væru að bugast undan auknu álagi og voru fundarmenn sammála um að þeir hræðast það að þetta álag muni ógna velferð og auka slysahættu starfsmanna.

 

Fundurinn samþykkti að fela formanni Verkalýðsfélags Akraness að koma þessum umkvörtunum starfsmanna rækilega á framfæri við yfirstjórn fyrirtækisins og þeir kröfðust þess einnig að teknar verði án tafar upp viðræður um 8 tíma vaktakerfi með sambærilegum hætti og gerist hjá Elkem Ísland. Í dag eru starfsmenn Norðuráls að vinna á 12 tíma vöktum og undir því álagi sem starfsmenn eru tekur slíkt verulega á.

 

Formaður hefur sent forstjóra, framkvæmdastjóra og starfsmannastjóra fyrirtækisins erindi þar sem þessum áhyggjum og umkvörtunum starfsmanna er komið vel á framfæri og einnig ósk um að hafnar verði viðræður um manneskjulegt vinnufyrirkomulag sem byggist á rótgrónu vaktakerfi Elkem Ísland. Vaktakerfi sem er fjölskylduvænt og fer mun betur með starfsmenn í alla staði en 12 tímavaktakerfi. 

 

Formaður vonast til að fá jákvætt svar frá forsvarsmönnum fyrirtækisins og átti hann meðal annars gott samtal við forstjóra fyrirtækisins í gær sem lofaði að kynna sér þessi mál vel og rækilega enda kom fram í máli hans að það skipti Norðurál miklu máli að starfsmenn séu ánægðir í starfi og öll fyrirtæki þurfi að hafa jákvæða og ánægða starfsmenn til að ná árangri. Það liggur fyrir að starfsmenn Norðuráls eru orðnir þreyttir á þessu álagi og það er mikilvægt fyrir Norðurál að átta sig á því að ef ekki verður tekið á þessu aukna álagi getur það haft alvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtækið þegar atvinnuástand á vinnumarkaði lagast.

 

Það er til að mynda morgunljóst í huga formanns að ef þetta mikla álag og 12 tíma vaktakerfi muni ekki lagast þá muni margir núverandi starfsmenn Norðuráls horfa hýru auga á nýjan 400 manna vinnustað sem hugsanlega rís við hliðina á Norðuráli á Grundartanga. En eins og flestir vita stefnir í að sólarkísilverksmiðjan Silicor hefji framkvæmdir á haustmánuðum sem skapa eins og áður sagði allt að 400 ný störf og því er mikilvægt að yfirstjórn Norðuráls hlusti af athygli á þessar sem og aðrar umkvartanir starfsmanna og bregðist við þeim því annars getur farið illa.

25. ágúst 2014

Annað kvöld, þriðjudaginn 26. ágúst, mun formaður Verkalýðsfélags Akraness funda með starfsmönnum steypuskála Norðuráls. Fundurinn hefst kl. 20:00 og verður haldinn á Gamla kaupfélaginu.

 

Ástæða fundarins er það aukna álag sem starfsmenn steypuskála hafa fundið fyrir undanfarna mánuði en fjölmargir þeirra hafa leitað til félagsins og óskað eftir aðstoða vegna þess.

 

Á fundinum verður meðal annars farið yfir til hvaða aðgerða hægt er að grípa í aðstæðum sem þessum en gríðarlega mikilvægt er að öryggi og velferð starfsmanna sé ætíð í fyrsta sæti.

 

Verkalýðsfélag Akraness vonast til að sjá sem flesta starfsmenn steypuskálans á þessum áríðandi fundi. Auglýsingu um fundinn má sjá hér til hliðar.

25. ágúst 2014

Frá ferð eldri félagsmanna í fyrra
Næstkomandi fimmtudag, 28. ágúst, er komið að hinni árlegu ferð Verkalýðsfélags Akraness með eldri félagsmönnum og mökum þeirra.

 

Að þessu sinni er ferðinni heitið í uppsveitir Borgarfjarðar og boðið verður upp á hádegisverð í Reykholti. Að því loknu verður haldið til Þingvalla um Kaldadal með viðkomu á ýmsum áhugaverðum stöðum. Ferðin verður farin undir dyggri leiðsögn Björns Inga Finsen sem mun vafalaust fræða ferðalanga um ýmislegt áhugavert á leiðinni.

 

Þessar árlegu ferðir með eldri félagsmönnum hafa alltaf verið einstaklega ánægjulegar og mikið tilhlökkunarefni. Félagsmenn sem eru 70 ára og eldri hafa fengið sent bréf heim og skráning stendur yfir til hádegis á miðvikudaginn.

21. ágúst 2014

Ein af íbúðum félagsins á Akureyri er laus til leigu í vetur, um er að ræða tímabundna leigu frá 1. september til 15. maí og hentar íbúðin því vel þeim sem til dæmis sækja skóla á Akureyri í vetur.  Íbúðin er 53 fm og leigð með öllum húsgögnum og húsbúnaði. Í henni eru tvö svefnherbergi, þvottavél inni á baði, rúmgóðar svalir.

Hægt er að skoða myndir úr íbúðinni með því að smella hér. Áhugasamir hafi samband við skrifstofu félagsins í síma 4309900.

Uppfært kl. 13:30 - Búið er að finna leigjanda í íbúðina, svo hún er ekki laus lengur.

14. maí 2014
0
0