• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Sep

Fundur í stjórnarráðinu

Forsetateymi Alþýðusambands Íslands fundaði með forsætisráðherra, félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra í stjórnarráðinu á föstudaginn.

Tilefni fundarins var að fara yfir innleiðingu aðgerða af hálfu stjórnvalda í tengslum við lífskjarasamninganna á hinum almenna vinnumarkaði sem undirritaðir voru þann 3. apríl sl.

En eins og flestir vita þá var aðkoma stjórnvalda að lausn kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði mjög yfirgripsmikil og er formanni VLFA og fyrsta varaforseta ASÍ til efs að stjórnvöld hafi áður komið jafn mikið að lausn á kjaradeilu eins í lífskjarasamningum.

Á fundinum var farið efnislega yfir yfirlýsinguna um stuðning stjórnvalda við lífskjarasamningana og hvar hvert atriði væri statt.

En þessir yfirflokkar í yfirlýsingu stjórnvalda lúta að eftirfarandi atriðum:

  • Tekjuskattur
  • Fæðingarorlof
  • Barnabætur
  • Húsnæðismál
  • Lífeyrismál
  • Félagsleg undirboð
  • Hagstjórn vinnumarkaður og verðlag
  • Einföldum regluverks og eftirlit
  • Markviss skerf til afnáms verðtryggingar

 

Varðandi tekjuskattinn liggur fyrir að stjórnvöld eru að efna loforð sitt sem fram kom í yfirlýsingu stjórnvalda en nú liggur fyrir að tekjuskattur verður lækkaður um rúmar 10.000 krónur á tekjulægstu hópana. Framkvæmdin mun koma inn á tveimur árum en ekki þremur eins og talað var um, sem er gott enda lagði verkalýðshreyfingin hart að stjórnvöldum að hraða þessum lækkunum. Á ársgrundvelli munu ráðstöfunartekjur þeirra tekjulægstu hækka um 120.000 kr. þegar þær verða komnar inn að fullu og aukning ráðstöfunartekna mun nema um 21 milljarði.

Fæðingarorlof mun lengjast úr níu mánuðum í tíu mánuði í byrjun árs 2020 og í byrjun árs 2021 verður fæðingarorlof orðið12 mánuðir.

Skerðingarmörk barnabóta munu hækka í 325 þúsund krónur á mánuði á árinu 2020 sem mun klárlega koma þeim tekjulægstu til góða.

Félagsleg undirboð: Tekið verði á kennitöluflakki á skilvirkan hátt og heimildir til refsinga verði auknar í samráði við aðila vinnumarkaðarins ef atvinnurekandi brýtur gegn lágmarkskjörum launamanns. Stefnt er að því að unnt verði að leggja fram frumvarp á Alþingi eigi síðar en á vorþingi 2020 sem tæki á þessum málum.

Varðandi yfirlýsingu stjórnvalda um að stíga markviss skerf til afnáms verðtryggingar kom fram að það liggi fyrir frumvarp sem bannar 40 ára jafngreiðslulán en þó með mjög víðrækum undanþágum. Það er ljóst að þessi drög að frumvarpi eru ekki í anda þess sem talað var um í aðdraganda lífskjarasamninganna og sagði fyrsti varaforseti á fundinum að hann liti á þessi drög sem svik ef þau yrðu að veruleika.

Niðurstaðan var að þessi mál yrðu skoðuð betur og mikilvægt er að sjá hvað kemur varðandi úrræði og aðgerðir til handa fyrstu kaupendum, því bann við 40 ára jafngreiðslulánum hanga eilítið saman við lausnir handa þeim hópi.

Heilt yfir var þetta góður fundur í stjórnarráðinu og ljóst er miðað við þennan fund að fullur vilji sé hjá stjórnvöldum að standa við sína yfirlýsingu í tengslum við lífskjarasamninganna en vissulega hef ég verulegar áhyggjur brotalöm geti orðið á yfirlýsingu varðandi að stíga markviss skref til afnáms verðtryggingar og eitt er víst að við það verður ekki unað.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image