• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
06
Sep

Ferð eldri félagsmanna 2018

Þriðjudaginn 4. september síðastliðinn var komið að hinni árlegu ferð eldri félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness. Þessar ferðir eru ómissandi þáttur í starfi félagsins og margir bíða þeirra með eftirvæntingu. Þetta árið fórum við um suðurlandið.

Fararstjóri ferðarinnar var Gísli Einarsson og stóð hann sig einstaklega vel í því hlutverki. Hann hafi harmonikkuna með sér og spilaði og söng við góðar undirtekir félagsmanna ásamt því að segja skemmtilegar sögur og fróðleiksmola. Farið var í tveimur rútum og sáu bílstjórarnir Atli og Sigurbaldur um aksturinn eins og oft áður í þessum ferðum. Veðrið sem hópurinn fékk var mun betra en spár höfðu sagt til um og talaði Gísli um að Vilhjálmur hefði náð þessu í gegn með góðum samningum við veðurguðina. 

Fyrsta stoppið var í Skálholti, þar sem nýji vígslubiskupinn Kristján Björnsson tók á móti okkur. Hann sagði okkur frá kirkjunni, listaverkunum sem þar eru og aðeins frá sögu staðarins. Næst var ferðinni heitið í Lava center á Hvolsvelli. Þar tóku þau Arna og Helgi á móti hópnum sem byrjaði á því að fá sér hádegismat. Eftir matinn var safnið skoðað, hópurinn fór á stutta en áhrifamikla bíósýningu um eldgos á Íslandi og skoðaði mjög metnaðarfulla sýningu þar sem meðal annars  var hægt að prufa að finna fyrir jarðskjálfta í þremur styrkleikum, hvernig þróun Íslands hefur verið og hinar ýmsu tegundir af hrauni. 

Þá var ferðinni heitið á Forsæti í flóanum en þar heimsóttum við þau hjón Ólaf og Bergþóru sem reka safnið Tré og list.  Þetta safn er með gríðarlegt magn af fallegu handverki, bæði gömlu og nýju.  Einnig er þarna mikið af fallegum gömlum áhöldum sem tengjast handverki. Sigga á Grund var einnig á staðnum, en hún hefur gert ótrúlega mikið af fallegu tréverki sem er á safninu. Meðal þess sem sjá má á safninu er pípuorgelið sem var í Vestmannaeyjakirkju fyrir gos en eftir gosið var það dæmt ónýtt. Ólafur tók það þá allt saman í sundur og flutti það heim til sín þar sem hann hefur hreinsað, lagað og endurbætt hvern einasta hlut í því. Hann hefur nú sett það saman og er það eins og nýtt.  

Hótel Selfoss var svo næsti viðkomustaður þar sem hópurinn settist niður og fékk sér kaffi og kökur. Síðasta stoppið var svo á Veiðisafninu á Stokkseyri þar sem Páll Reynisson tók á móti okkur og fræddi okkur um það sem mátti sjá á safninu. Á Veiðisafninu er mikið að skoða en þar má meðal annars sjá gíraffa, sebrahesta, hvítabirni, krókódíl og margt fleira. Hann sagði  okkur m.a. frá því helsta um stærstu dýrin, hver veiddi þau, með hverju og hvernig kjötið bragðaðist. Það var alveg einstaklega skemmtilegt að hlusta á allar sögurnar sem hann sagði okkur, bæði þær sönnu og þessar sem voru minna sannar.  

Hér má skoða myndir úr ferðinni.

 

 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image