• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
17
May

Laun forstjóra og embættismanna hækka á einu bretti um hundruð þúsunda

Það er óhætt að segja að enn og aftur hafi gripið um sig taumlaus og botnlaus græðgi hjá stjórnendum íslenskra fyrirtækja og hjá ríki og sveitafélögum á liðnum misserum eins og upplýst hefur verið í fréttum á liðnum dögum og vikum þar sem fram hafa komið upplýsingar um gríðarlegar launahækkanir stjórnenda, hækkanir sem nema oft á tíðum hundruðum þúsunda króna á mánuði.  

Það er nöturlegt og óþolandi að á sama tíma og launataxtar verkafólks eru að hækka um einungis 9.000 krónur á mánuði þá eru stjórnendur og embættismenn að hækka í mánaðarlaunum frá 156 þúsundum uppí eina milljón á mánuði. Svo koma þessir aðilar og tala um mikilvægi þess að almennt launafólk sýni hófsemd og stillingu í komandi kjarasamningum þannig að hinum margfræga stöðugleika verði ekki ógnað. Það er morgunljóst að þessi grímulausa græðgi stjórnenda íslenskra fyrirtækja og embættismanna mun klárlega leiða til þess að kröfugerð stéttarfélaganna mun endurspegla það svigrúm sem stjórnendur hafa sýnt að sé til staðar á íslenskum vinnumarkaði. Það er mikilvægt þegar þessar launahækkanir stjórnenda og embættismanna eru skoðaðar að hafa í huga að lágmarkslaun verkafólks hafa hækkað á 20 árum um einungis 230 þúsund en eins og sjá má hér að neðan þá eru fjölmargir stjórnendur að taka slíka launahækkun og rúmlega það á einu bretti. 

  • Forstjóri N1 hækkaði í launum um 1 milljón á mánuði, mánaðarlaun 5 milljónir.
  • Forstjóri Landsvirkjunar hækkaði í launum um 800 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 2,7 milljónir.
  • Forstjóri Eimskips hækkaði í launum um tæp 700 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 8,6 milljónir.
  • Bæjarstjóri Kópavogs hækkaði um 612 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 2,5 milljónir.
  • Forstjóri Símans hækkaði í launum um 433 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 4 milljónir.
  • Forstjóri Isavia hækkaði um 400 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 2,1 milljón. 
  • Forstjóri Reita hækkaði í launum um 400 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 3,7 milljónir. 
  • Forstjóri HB Granda hækkaði í launum um 330 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 4,2 milljónir. 
  • Forstjóri Hörpu hækkaði um 267 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 1,6 milljónir.
  • Forstjóri Sjóvá hækkaði í launum um 242 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 4,1 milljón.
  • Forstjóri Íslandspósts hækkaði í launum um 252 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 1,7 milljónir.
  • Sjónvarpsstjóri RÚV hækkaði í launum um 250 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 1,8 milljónir.
  • Forstjóri Landsnets hækkaði í launum um 180 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 1,8 milljónir.
  • Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur hækkaði um 156 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 3 milljónir.

Þessu til viðbótar er rétt að rifja upp að kjararáð hefur hækkað æðstu embættismenn og ráðherra og þingfarakaup um sem nemur 200 til 400 þúsund á mánuði og var það afturvirkt í sumum tilfellum jafnvel 2 ár aftur í tímann.  

Að hugsa sér að á sama tíma og Samtök atvinnulífsins, fjármálaráðuneytið, Seðlabankinn og ráðmenn þjóðarinnar koma fram í fjölmiðlum og lýsa yfir gríðarlegum áhyggjum yfir komandi kjarasamningum launafólks á hinum almenna vinnumarkaði og kalla ítrekað eftir að stöðugleikanum verði ekki ógnað eru valdaelítan að raka til sín gríðarlegum launahækkunum og ætlast síðan til þess að almennt launafólk brosi og þegi yfir þessari misskiptingu í íslensku samfélagi.

Það virðist því miður vera fátt sem geti komið í veg fyrir að gríðarlega átök verði á vinnumarkaðnum þegar kjarasamningar renna út um næstu áramót á hinum almenna vinnumarkaði, enda er ekki nokkurn vilja að finna hjá stjórnvöldum né Samtökum atvinnulífsins um að hefja strax vinnu byggða á hugmyndum sem Verkalýðsfélag Akraness, VR, Efling og Framsýn hafa kynnt fyrir forsætisráðherra og fulltrúum SA og byggist á að gerður sé samfélagssáttmáli til 3 - 4 ára með miklum kerfisbreytingum.  Kerfisbreytingum sem byggjast m.a. á því að taka hér á okurvöxtum,okurleigu, verðtryggingu og húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu.  Kerfisbreytingar þar sem hagsmunir alþýðunnar og íslenskra heimila verði teknir framyfir hagsmuni fjármálakerfisins og í þessum samfélagssáttmála yrði horft til þess að aukaráðstöfunartekjur lág-og millitekjuhópanna eins og kostur er. 

En eins og áður sagði er lítinn vilja að finna hjá stjórnvöldum og fulltrúum atvinnulífsins og því vill formaður VLFA að það komi skýrt fram að þessi félög munu og ætla að láta kné fylgja kviði við bætta og auka ráðstöfunartekjur okkar fólks og það verður gert með góðu eða illu!

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image