• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
May

Vel heppnuð hátíðarhöld vegna 1. maí á Akranesi

Eins og víða um land var 1. maí haldinn hátíðlegur hér á Akranesi í gær og fóru hátíðarhöldin fram með hefðbundnum hætti. Farið var í kröfugöngu kl. 14 og þrátt fyrir það að framan af degi hafi gengið á með éljum, þá skein sólin á göngufólkið þar sem það gekk hring um miðbæinn með fána og kröfuspjöld undir taktföstum tónum og slætti Skólahljómsveitar Akraness. Hægt er að sjá myndir úr kröfugöngunni hér.

Að göngu lokinni hófst hátíðardagskrá í sal Verkalýðsfélags Akraness að Kirkjubraut 40. Þar söng kvennakórinn Ymur nokkur vel valin lög og Lionsklúbburinn Eðna sá um glæsilegar kaffiveitingar.

Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA, flutti barátturæðu dagsins og þar fór hann yfir víðan völl. Vilhjálmur minntist þess t.a.m. að í ár, 10 árum frá hruni, virðist allt stefna í sama farið og áður þar sem ofurlaun, bónusar og kaupréttarsamningar falla í skaut fámennrar snobbelítu fjármálakerfisins á kostnað almennings. Sagði hann ljóst að alls ekki mætti falla í gryfju meðvirkni, þöggunar og gagnrýnislausrar hugsunar eins og gerðist fyrir hrun og að nú þyrfti að spyrna við og mótmæla siðrofinu, sjálftökunni og spillingunni sem enn á ný hefur skotið rótum í samfélagi okkar.

Vilhjálmur sagði einnig frá því að nú loks sæi hann fyrir sér von um að hægt verði að kalla eftir róttækum kerfisbreytingum íslensku launafólki og íslenskum heimilum til hagsbóta. Þessi von byggist á stórkostlegum breytingar sem orðið hafa til góðs í íslenskri verkalýðshreyfingu en með sigri Sólvegar Önnu til formanns í Eflingu og sigri Ragnars Þórs í VR hefur skapast nýr meirihluti innan Alþýðusambands Íslands.

Þessi meirihluti hafnar samræmdri láglaunastefnu undir forystu forseta ASÍ, mun beita sér af alefli fyrir lækkun vaxta, afnámi verðtryggingar og því að húsnæðisliðurinn verði tekinn úr lögum um vexti og verðtryggingu. Þessi meirihluti mun líka beita sér fyrir því að hinn tryllti leigumarkaður sem gerir lágtekjufólki ómögulegt að eignast öruggt heimili verði tekinn föstum tökum og réttur af.

Það er óhætt að segja að i ræðu sinni hafi Vilhjálmur talað á mannamáli og var gerður góður rómur að málflutningi hans. Ræðu Vilhjálms í heild sinni er hægt að nálgast hér.

Verkalýðsfélag Akraness vill þakka öllum þeim sem sáu sér fært að mæta og taka þátt í þessum baráttudegi verkalýðsins.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image